Beltaherferðin 2 sekúndur

vinningshafar í leik á 2sek.is

22.9.2020

Samgöngustofa, í samstarfi við auglýsingastofuna Pipar-TBWA, var í vor með herferð í gangi sem kallast 2 sekúndur og hvetur ökumenn til að spara sér ekki 2 sekúndur við það að spenna á sig öryggisbeltin. Herferðinni er ætlað að varpa ljósi á fáránleika þess að nota ekki öryggisbeltin. Hluti af herferðinni var leikur sem gekk út á það að nefna eitthvað sem tekur aðeins tvær sekúndur að gera, svo stuttan tíma að það er fáránlegt að sleppa því – jafn fáránlegt og að sleppa því að festa bílbeltin. Á annað þúsund þátttakenda sendu inn svar og voru eftirtaldir vinningshafar dregnir út:

1. sæti: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson 
í Kópavogi sem vinnur Samsung Galaxy S20 4G snjallsíma

2. sæti: Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir 
á Flateyri sem vinnur Samsung Galaxy Watch Active2 snjallúr

3. sæti: Benedikt Snær Gylfason 
í Mosfellsbæ sem vinnur Samsung Galaxy Buds+ heyrnartól

Vinningarbb

Við óskum vinningshöfunum innilega til hamingju með vinningana frá Samsung Mobile á Íslandi. Rannsóknir sýna að rétt tæplega 10% Íslendinga nota ekki öryggisbelti eða um 35 þúsund manns þó það taki aðeins 2 sekúndur að spenna þau. Dettur þér eitthvað heimskulegra í hug en að sleppa því að spenna? Margar hugmyndir bárust í gegnum leikinn, hér koma nokkur dæmi:

Það tekur bara tvær sekúndur
o Að loka útidyrunum
o Að slökkva á fjarfundinum að honum loknum
o Að fara í ofnhanska áður en maður tekur mat úr ofninum
o Að halda fyrir munn og nef þegar þú hnerrar
o Að slökkva á eldavélinni
o Að stilla vekjaraklukkuna
o Að athuga hvort málningardósin er almennilega lokuð áður en maður hristir hana
o Að blása á kertin áður en farið er að sofa
o Að fjarlægja dælustútinn úr bensínlokinu á bílnum áður en þú leggur af stað
o Að taka umbúðirnar af hamborgaranum
o Að kveikja ljósin
o Að líta til beggja hliða áður en gengið er yfir götu
o Að loka skottinu eftir stóra innkaupaferð
o Að læsa hjólinu sínu
o Að setja á sig flugeldagleraugu
o Að setja símann í hleðslu

Hver veit nema að einhver af þessum tillögum verði notaðar í næstu beltaherferð? Hér má sjá myndböndin úr herferðinni sjálfri:

Myndir úr 2 sekúndu herferðinni

Ökumaður sem notar ekki bílbelti er í um 8 sinnum meiri hættu á að lenda í banaslysi en sá sem notar beltið. Þetta sést á samanburði á beltanotkunartíðni annars vegar og tíðni beltanotkunar þeirra sem látast í umferðarslysum hins vegar. 

Í rannsóknum á banaslysum þar sem fólk hefur ekki notað belti hefur komið í ljós að í langflestum tilfellum hefði viðkomandi bjargast hefði hann notað beltin. 

Í samanburði við önnur Evrópulönd eru Íslendingar í 17. sæti hvað varðar almenna notkun öryggisbelta. Það tekur aðeins 2 sekúndur að breyta því og komast í 1. sæti!

www.2sek.is