Brjálæðisakstur á bifhjóli

6.10.2014


Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur fram að heildarfjöldi hraðakstursbrota í umdæminu á tímabilinu 16. maí til 15. september (125 dagar) var 503 brot.

Á þessu tímabili stóð yfir átaksverkefni lögreglu og Vegagerðarinnar er varðar sérstakt umferðareftirlit. Innan ramma þess verkefnis  eru skráð 383 hraðakstursbrot af ofangreindum brotafjölda. Utan verkefnisins eru því 120 brot kærð vegna hraðaksturs.

Hraðast ók ökumaður  á mótorhjóli, sem mældist á 206 km, þar sem hámarkshraði er 90 km. Næstmesti hraði mældist 167 km. þar sem hámarkshraði er einnig 90 km. og var þar á ferðinni ökumaður bifreiðar.  Brot líkt og þessi teljast svo alvarleg og hættuleg að viðurlög við þeim eru utan ramma reglugerðar um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og því eru kveðnir upp dómar í málum sem þessum.

Ofangreind brot féllu bæði undir sérstaka umferðareftirlitið.