Fræðsla til erlendra ökumanna
sem leigja bíl hjá Hertz við Flugvallarveg
Erlendir viðskiptavinir Hertz við Flugvallarveg þurfa nú að ljúka ítarlegri umferðarfræðslu áður en þeir fá afhenta lykla að bílaleigubílnum. Markmið tilraunaverkefnis, sem ýtt var úr vör í gær, er að bæta hegðun ökumanna og fækka óhöppum. Ökumaður horfir á stutta fræðslumynd frá Samgöngustofu og tekur próf um akstur við íslenskar aðstæður.
Verkefnið er meðal afraksturs góðs samstarfs Safetravel, Samgöngustofu, Sjóvár, lögreglunnar á Suðurlandi, Vegagerðarinnar, SAF og samgönguráðuneytisins um útgáfu svokallaðra stýrisspjalda. Stýrisspjöldin vekja athygli á öryggisþáttum sem ökumenn þurfa að hafa í huga við akstur á Íslandi á borð við notkun öryggisbelta, yfirborð vega, einbreiðar brýr o.fl. Þessi spjöld fá bílaleigur endurgjaldslaust, hengja á stýri bílaleigubílanna og því fer það ekki framhjá ökumönnum sem leigja bíl á Íslandi. Fræðsluefnið á stýrisspjöldunum er sett fram á myndrænan hátt með enskum texta en einnig fylgja litlir bæklingar með sama efni á sex tungumálum.
Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, var fyrst til að gangast undir prófið í gær og stóðst það með glæsibrag. Hún fagnar framtakinu og vonast til að fleiri bílaleigur taki þátt.
Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Smári Sigurðsson formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjörg og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála.
Smári Sigurðsson formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjörg, Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Hendrik Berndsen framkvæmdastjóri Hertz, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála, Ingi Heiðar Bergþórsson framkvæmdastjóri þjónustu- og starfsmannasviðs Hertz og Auður Daníelsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafar hjá Sjóvá.