Fyrstu viðurkenningarnar vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra

2.5.2016

Fyrstu endurmenntunarnámskeiðin fyrir bílstjóra með réttindi til að stjórna bifreið í C1, C, D1 og D-flokkum í atvinnuskyni voru viðurkennd 22. apríl sl. Fyrstu viðurkenningarnar fengu Framvegis, miðstöð símenntunar ehf. og ökuskólinn Ökuland ehf.
Þessi námskeið skulu fara fram í samræmi við námsskrá Samgöngustofu . Eru þau 35 kennslustundir í 7 stunda lotum á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun skírteina.
Sá sem er með ökuskírteini fyrir D1- og D-flokk til farþegaflutninga í atvinnuskyni og fyrir C1- og C-flokk til vöruflutninga í atvinnuskyni skal sækja 35 stunda endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti. Þann 10. september 2018 skulu allir þessir ökumenn hafa lokið sinni fyrstu endurmenntun, eða hafa öðlast fyrstu réttindi í þessum flokkum innan síðustu 5 ára frá þeirri dagsetningu. Hafi ökumaður ekki sótt endurmenntunarnámskeið, má endurnýja ökuskírteini hans, en þá án réttinda til aksturs í atvinnuskyni.
Góð endurmenntun eflir bílstjóra í mikilvægu starfi og stuðlar að auknu öryggi og fagmennsku. Samgöngustofa fagnar þessu skrefi og óskar bílstjórum og námskeiðshöldurum velfarnaðar.