Heilræði fyrir helgina

2.8.2019

Nú er verslunarmannahelgin framundan og má búast við mikilli umferð um landið og til þess verða notuð margskonar samgöngutæki á lofti, láði og legi. Starfsfólk Samgöngustofu mun standa vaktina um helgina og miðla upplýsingum og heilræðum varðandi umferðina í fjölmiðlum. Auk þess munu starfsmenn annast athuganir og eftirlit með flugi líkt og verið hefur undanfarin ár. Þessi mál eru yfirleitt til fyrirmyndar hjá íslenskum rekstraraðilum og skírteinishöfum.

Verða að hafa rekstrarleyfi til farþegaflutninga

Til að fljúga eða sigla með farþega gegn greiðslu þarf flugrekstrarleyfi eða farþegaleyfi en gerðar eru sérstakar kröfur til handhafa slíkra leyfa m.a. hvað öryggi og þjónustu varðar. Hvað varðar siglingar með farþega er Landhelgisgæsla Íslands með eftirlit á sjó. 

Hér má nálgast lista yfir þá aðila sem hafa flugrekstrarleyfi á Íslandi og hér eru listar yfir þau skip sem eru með farþegaleyfi. Aðilar sem skráðir eru á þessa lista uppfylla sett skilyrði er varða lög og reglur um öryggi og tryggingar í farþegaflutningum.

Einkaflugmönnum og eigendum skemmtibáta er heimilt að taka með sér með vini og kunningja innan marka þeirra reglna sem um það gilda. Sem dæmi má nefna að heimilt er að deila eldsneytiskostnaði í einkaflugi með farþegum að því gefnu að einn hluti kostnaðar falli á flugmann.

Gott að hafa í huga um helgina

Samgöngustofa vill hvetja ökumenn til að hafa skynsemi og þolinmæði að leiðarljósi á ferð sinni um landið. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til fararinnar því hún kann að taka lengri tíma sökum mikillar umferðar. Ferð í Landeyjarhöfn frá höfuðborgarsvæðinu getur tekið 2 klukkustundir ef aðstæður eru góðar.

Látum ekkert skerða athygli okkar á meðan á akstri stendur. Sýnum tillitsemi og förum ekki fram fyrir leyfðan hámarkshraða sem reyndar miðast einvörðungu við bestu mögulegu aðstæður. Þeir sem þurfa að fara hægar skulu haga akstri þannig að auðvelt sé og öruggt að fara framúr. Heil óbrotin lína eða skilti, sem bannar framúrakstur, eru ekki tilviljanakennt skraut, heldur okkur til verndar - sé skynsemin og ábyrgðin höfð að leiðarljósi.

Algengustu orsakir banaslysa í umferðinni

Akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra vímuefna er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni ásamt hraðakstri og vannotkun á öryggisbeltum. Það eru vegfarendur sjálfir sem einir taka þessa hættu úr umferð og mikilvægur hluti þess er að öryggisbelti séu alltaf notuð,  allstaðar í bílnum. Verum þess fullviss að ekkert áfengi sé í blóði áður en sest er undir stýri en það getur tekið allt að 18 klukkustundir frá því að síðasti sopinn er tekinn.

Samgöngustofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar og öruggrar heimkomu.

""