Höldum fókus sigraði í alþjóðlegri samkeppni

10.5.2017

Höldum fókus 2  sigraði í flokknum “Best use of Snapchat”  þegar Digiday Content Marketing verðlaunin voru afhent í New York í gærkvöldi. Herferðin var unnin af framleiðslufyrirtækinu Tjarnargatan fyrir Símann og Samgöngustofu sumarið 2016. Fulltrúar Tjarnargötunnar, Símans og Samgöngustofu veittu verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í Edison Ballroom í New York í gærkvöldi.

Tilgangur herferðarinnar Höldum fókus 2 er að vekja ökumenn, sem eru virkir í Snapchat-samskiptum, til vitundar um mikilvægi þess að blanda þeirri afþreyingu ekki við akstur. Herferðinni var fyrst og fremst beint að fylgjendum nokkurra vinsælustu „Snappara” Íslands þ.e. þeim EmmSé Gauta, Snorra Björns, Margréti Erlu Mack og Berglindi Festival en ætla má að fylgjendur þeirra á Snapchat séu um 30 þúsund talsins.

Víða um heim er lögð mikil áhersla á forvarnir gegn notkun snjallsíma á meðan á akstri stendur og mun Samgöngustofa, í samstarfi við fleiri aðila, leggja sérstaka áherslu á þetta í áróðri sínum og fræðslu í framtíðinni. Í viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu kemur fram að rétt tæplega 100% aðspurðra telja það að lesa eða senda textaskilaboð á meðan á akstri vera hættulegt. Þar af segja 72% það vera stórhættulegt.

Holdum-fokus-NY Tekið við verðlaunum. F.v.: Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, Hildur Björk Hafsteinsdóttir markaðsstjóri Símans og Einar Ben framkvæmdastjóri Tjarnargötunnar