Könnun á öryggi barna í bílum

Á 30 árum hefur orðið mikil vitundarvakning

29.9.2015

Nú stendur yfir athugun á öryggi barna í bílum við 80 leikskóla víðsvegar um landið en að þessari könnun standa Samgöngustofa og Landsbjörg. Undanfarin 30 ár hafa verið gerðar slíkar kannanir við leikskóla landsins þar sem gerð er athugun á því hvort foreldrar og forráðamenn barna séu með réttan öryggisbúnað fyrir börnin á leið þeirra til leikskóla. Það er óhætt að segja að þetta verkefni sé einstakt því ekki virðist sem sambærilegar kannanir hafi verið gerðar erlendis. 

Könnunin um öryggi barna í bílum var gerð á hverju ári fram til ársins 2011 en síðan þá hefur hún verið framkvæmd annað hvert ár. Í síðustu könnun sem gerð var árið 2013 voru 49 leikskólar heimsóttir, í 21 bæjarfélagi og gerð var athugun á öryggi 1976 barna.

Starfsmaður Samgöngustofu framkvæmir könnun. Mynd hægri: Barn fest í bílsstól

Árið 1985 hóf Umferðarráð samstarf við Landsbjörgu um gerð slíkra athugana en síðan tók Umferðarstofa við árið 2002 og árið 2013 átti Samgöngustofa fyrst aðkomu að þessu verkefni í samtarfi við Landsbjörgu.

Það er óhætt að segja að foreldrar og forráðamenn barna séu yfirleitt til fyrirmyndar hvað varðar öryggi barnanna í bíl. Á fyrstu árum þessara kannana voru niðurstöður óviðunandi en eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur mikill árangur náðst. 

Stöplarit: Þróunin mjög góð. Fyrst þegar könnunin var framkvæmd árið 1985 voru aðeins um 20% í viðeigandi öryggisbúnaði en nú er þetta hlutfall komið í 92%

Markmiðið er að engar undantekningar verði frá þeirri reglu að fyllsta öryggis sé gætt. Niðurstöður kannanna hafa verið kynntar m.a. í nærumhverfi leikskólanna og með þeim hætti hefur tekist að koma fræðslu og leiðbeiningum á framfæri með árangursríkum hætti. Sá árangur sem hefur náðst er ekki síst þessum könnunum að þakka og ítarlegri úrvinnslu gagna.