Könnun á öryggi hjólandi á stígum

18.5.2022

DSCF0139vefur
Eitt af mörgum hlutverkum Samgöngustofu er greining, forvarnir og fræðsla um öryggi hjólandi vegfaranda.

Í maí hefur Samgöngustofa í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg framkvæmt könnun við valda stíga á höfuðborgarsvæðinu. Undanfarin ár hefur umferð meðal ökumanna á akbrautum verið könnuð en með þessu samstarfsverkefni er ætlunin að fá sem besta mynd af stöðunni utan akbrauta á göngu- og hjólastígum. Farartæki sem fóru um stíginn voru skráð og hvort ökumaður hafi verið með hjálm. Einnig var aldur og kyn skráð, hvort ökumaður horfði eða meðhöndlaði síma, hvort að farþegi hafi verið auk ökumanns á farartækinu og hvort að farþeginn hafi þá verið með hjálm. Ætlunin er svo að framkvæma könnunina með sama hætti næstu árin til að geta fengið sem besta mynd af þróun hegðunar á göngu- og hjólastígum.

Það eru unglingadeildir Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu sem sáu um framkvæmd könnunarinnar en undanfarin ár hafa Samgöngustofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg tekið höndum saman og lagt sérstaka áherslu á öryggi ungs fólks (15-20 ára) í umferðinni og virkt þau til aðgerða með aukinni þátttöku og stefnumótun með það að leiðarljósi að fræða jafnaldra um umferðaröryggi. Könnunin fór fram á sama tíma og verkefnið Hjólað í vinnuna stóð yfir og var því mikil umferð um stígana. Niðurstöður verða svo teknar saman á næstunni og gefnar út en þær ættu að veita vísbendingar um öryggi hjólandi vegfarenda og hvar mögulega er þörf á frekari fræðslu og forvörnum.