Fyrsta undirritun umferðarsáttmálans
Í dag, 7. janúar, var í fyrsta skipti skrifað undir svonefndan umferðarsáttmála við formlega athöfn í höfuðstöðvum Frumherja. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, undirritaði fyrsta eintakið. Markmið umferðarsáttmálans er að móta í sameiningu jákvæða umferðarmenningu.
Það var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem átti frumkvæði að verkefninu en hugmyndin er sú að sáttmálinn innihaldi nokkurs konar boðorð vegfarenda, einfaldar kurteisisreglur sem allir, hvort sem þeir eru t.d. gangandi, hjólandi eða akandi, ættu að geta tileinkað sér til að stuðla að jákvæðri umferðarmenningu.
Það má segja að sáttmálinn sé sjálfsprottinn og unninn upp úr hugmyndum og áherslum hins almenna vegfaranda. Í samstarfi við Umferðarstofu, síðar Samgöngustofu, var auglýst á facebooksíðu lögreglunnar eftir áhugasömum þátttakendum til að taka þátt í verkefninu. Á endanum var settur saman 14 manna hópur karla og kvenna á öllum aldri. Í kjölfarið var einnig stofnaður sérstakur umræðuhópur á Facebook um umferðarmenninguna þar sem margir lögðu sitt til málanna.
Ólafur Ragnar sagði í ræðu sinni að sáttmálinn væri til að skerpa enn betur á þeim árangri sem náðst hefur í umferðaröryggismálum og jafnframt myndi hann efla vitund ökumanna um ábyrgð sína í umferðinni.
Forsetinn afhenti síðan fjórum nýútskrifuðum ökumönnum sáttmála sem þau höfðu undirritað og óskaði þeim velfarnaðar í umferðinni. Í framhaldinu er ætlunin að gefa öllum ökunemum kost á að skrifa undir slíkan sáttmála þegar þeir ljúka ökunámi.
Hér má sjá umferðarsáttmálann í heild sinni.