Sigur og mælanlegur árangur Höldum fókus

31.1.2014

Herferðin Höldum fókus bar sigur úr bítum í flokknum „Besta markaðsherferðin á netinu“ þegar vefverðlaunin 2013 voru veitt af Samtökum vefiðnaðarins í kvöld. Samgöngustofa setti herferðina af stað sumarið 2013 í samstarfi við Símann og framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan en auk þessa var herferðin tilnefnd til verðlauna í flokknum „Frumlegasti vefurinn“.

 

Höldum fókus var til þess gert að breyta viðhorfi fólks og hegðun hvað varðar símanotkun á meðan á akstri stendur. Í umsögn dómnefndar sagði; „Verðugt viðfangsefni var nálgast frá áhrifamiklu sjónarhorni og framkvæmt með gagnvirkni á einstaklega frumlegan og athyglisverðan hátt. Skilaboð herferðarinnar ná inn að hjartarótum, tæknileg útfærsla þeirra fær alla tækninörda til að gapa af undrun og síðast en ekki síst tengja þau málefnið og áhorfandann á svo áhrifaríkan hátt að það lætur engann ósnortinn. Vefurinn er skilduáfangastaður allra veffarenda.“

Það sem skiptir aðstandendur herferðarinnar mestu máli er sá árangur sem nú hefur komið í ljós en í viðhorfskönnun sem Capacent gerði í lok árs 2012 þar sem fólk var spurt hvort það tali, oft, stundum, sjaldan eða aldrei í farsíma án handfrjáls búnaðar á meðan á akstri stendur kom í ljós að í aldurshópnum 18 – 24 sögðust 22% gera það oft áður en herferðinni var hrundið af stað. Í könnun sem gerð var í desember 2013 þ.e. eftir herferðina mátti sjá afgerandi mun í þessum aldurshópi en þá var hlutfall þessa hóps komið niður í 8%. Þeir sem segjast oft eða stundum tala í síma án handfrjáls búnaðar á meðan á akstri stendur eru nú samtals 41% en voru 50% áður en Höldum fókus var sett af stað. Óhætt er að segja að þetta sé framar öllum vonum aðstandenda herferðarinnar.

Heimsóknir inn á herferðina hafa verið samtals 230.000 og fjöldi þeirra tölva sem notaðar hafa verið til þess er um 145.000. Það sem vekur mesta athygli er sá gríðarlegi fjöldi fólks sem hefur dreift herferðinni á fésbókinni en það gerðu um 35.000. Ekki er vitað um sambærileg dæmi hér á landi hvað varðar dreifingu efnis á samskiptamiðlum.

Frá afhendingu verðlaunanna