Nýjar mengunarkröfur tóku gildi um áramót

2.1.2014

Um síðustu áramót tóku gildi Euro 6 mengunarkröfur fyrir ákveðin ökutæki, sem þurfa þá að uppfylla strangari kröfur um útblástur en áður. Er þetta í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins, þ.e. EB-reglugerð nr. 595/2009, en samkvæmt henni tóku um áramótin gildi Euro 6 mengunarstaðall fyrir öll ný ökutæki með viðmiðunarmassa yfir 2610kg. Viðmiðunarmassi er eiginþyngd ökutækis tilbúið til aksturs, að frádregnum föstum massa ökumannsins (75 kg), að viðbættum 100 kg föstum massa. Þau nýju ökutæki með viðmiðunarmassa yfir 2610kg sem uppfylla ekki þessar mengunarkröfur, fá því ekki skráningu á Íslandi frá síðustu áramótum.

Markmið EB-reglugerðar nr. 595/2009 er að setja samræmdar kröfur sem tryggja öfluga umhverfisvernd. Í henni kemur fram að til að ná markmiðum ESB um loftgæði þurfi áframhaldandi átak til að draga úr losun frá ökutækjum.

EB-reglugerð nr. 595/2009 er sérreglugerð sem sett er á grundvelli rammatilskipunar 2007/46/EB. Markmið þeirrar síðarnefndu er að tryggja umferðaröryggis- og umhverfissjónarmið. Báðar þessar reglugerðir hafa verið teknar upp í EES-samninginn og því í kjölfarið innleiddar hér á landi, nánar tiltekið með reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

Reglugerð um gerð og búnað ökutækja inniheldur sambærilegt markmiðsákvæði, þ.e. að tryggja umferðaröryggis- og umhverfissjónarmið.