Tími endurskinsmerkja genginn í garð
Nú er veturinn á næsta leiti og tímabært að huga að endurskinsmerkjunum. Í myrkri sjást gangandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða. Þetta á sérstaklega við þegar um dökkan klæðnað er að ræða en þó má í öllum tilfellum fullyrða að endurskinsmerki séu nauðsynleg. Endurskinsmerkin þarf að staðsetja þannig að þau séu sýnileg og best er að hafa þau fremst á ermum, hangandi meðfram hliðum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum. Þá virka endurskinsmerkin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur, hvort sem þeir eru gangandi, hlaupandi eða hjólandi, þeim mun meira er öryggi þeirra í umferðinni. Það er staðreynd að ökumenn sjá vegfarendur með endurskinsmerki a.m.k. fimm sinnum fyrr og því getur notkun endurskinsmerka skipt sköpum.
Fullorðnir til fyrirmyndar
Allir ættu að finna endurskin við hæfi en það eru til margar gerðir og stærðir eins og endurskinsvesti, límmerki, barmmerki eða hangandi endurskinsmerki. Þá er gott að líma endurskin á barnavagna, sleða og bakpoka. Fullorðnir eiga að sjálfsögðu að vera fyrirmyndir barna og vera með endurskinsmerki á sínum flíkum.
Fjórfætlingar þurfa að sjást
Endurskinsmerki er einnig hægt að líma á hunda- og kattaólar og sjálfsagt er að bregða sérstökum endurskinsborðum um fætur hestsins þegar farið er í reiðtúr.
Hvar fást endurskinsmerki?
Hægt er að fá endurskinsmerki hjá:
- Lyfju,
- Slysavarnafélaginu Landsbjörg,
- Íslandspósti,
- N1,
- Minju Skólavörðustíg,
- Þjóðminjasafninu,
- Epal í Hörpu,
- Pennanum í Kringlunni,
- Íslandía í Kringlunni og Bankastræti,
- Þinni verslun Seljabraut,
- Árbæjarsafni,
- versluninni Álafoss í Mosfellsbæ,
- Ranimosk á Laugavegi,
- Litlu barnabúðinni Laugavegi.
- ADHD samtökunum
- hjólreiðaverslanir,
- Dynjandi
- ýmsum blómaverslunum
Þessi listi er ekki tæmandi því án efa eru fleiri aðilar sem annast sölu endurskinsmerkja en hér er upp talið.