Hegðun og heit sem einkenna góða ökumenn
Nú liggur fyrir umferðarsáttmáli í þréttán liðum sem unnið hefur verið að frá því í fyrra en að þeirri vinnu komu fulltrúar almennings ásamt starfsmönnum lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Samgöngustofu. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, veitti frumeintaki sáttmálans viðtöku í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag og að því tilefni fengu börn frá leikskólanum Sunnuás og 2. bekk Langholtsskóla afnot af rafmagnsbílum á bílabraut garðsins og nutu leiðsagnar lögreglu um umferðarreglurnar.
Markmið umferðarsáttmálans er að móta jákvæða umferðarmenningu. Þetta er sáttmáli sem fulltrúar allra vegfarenda mótuðu og lögðu með því línur um þá hegðun og samskipti sem einkennir góða umferðarmenningu. Lögregla höfuðborgarsvæðisins átti frumkvæði að verkefninu en í samstarfi við starfsmenn Samgöngustofu var verkefninu miðlað til almennings undir nafninu "Gerum það saman" á sérstakri heimasíðu og m.a. á Facebook síðu lögreglunnar.
Í mars var auglýst á facebook-síðu lögreglu eftir áhugasömum þátttakendum til að vinna að gerð sáttmálans og sýndu því margir áhuga. Á endanum var settur saman 14 manna hópur karla og kvenna á öllum aldri. Þess var gætt að í hópnum væru fulltrúar allra vegfarendahópa. Í kjölfarið var einnig stofnaður sérstakur umræðuhópur á Facebook um umferðarmenninguna þar sem margir lögðu sitt til málanna.
Sáttmálinn hefur nú litið dagsins ljós og er hann í 13 einföldum liðum:
1. Ég er aldrei undir áhrifum í umferðinni
2. Ég gef stefnumerki í tæka tíð
3. Ég virði hraðamörk
4. Ég læt hvorki síma né annað trufla mig
5. Ég fer ekki yfir á rauðu ljósi
6. Ég held hæfilegri fjarlægð
7. Ég þakka fyrir mig
8. Ég nýti „tannhjólaaðferð“ þegar við á
9. Ég held mig hægra megin
10. Ég er sýnileg(ur)
11. Ég legg löglega
12. Ég tek mið af aðstæðum
13. Ég sýni ábyrgð
Hugmyndin er sú að sáttmálinn sé nokkurs konar boðorð vegfarenda, einfaldar kurteisisreglur sem allir ættu að geta tileinkað sér til að stuðla að jákvæðri umferðarmenningu. Hér má sjá nánari útskýringar á hverjum lið fyrir sig.
Hér má sjá myndir frá afhendingu umferðarsáttmálans í dag. Á neðstu myndinni má sjá ásamt herra Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra og Hermanni Guðjónssyni forstjóra Samgöngustofu, fulltrúa almennings sem unnu að gerð sáttmálans í sjálfboðavinnu.