Umferðarmenning hefur farið batnandi

30.8.2013

Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar skýrslu Upplýsinga- og áætlunardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu virðast ökumenn vera orðnir betri en áður, bæði ábyrgari og varkárari og standast vel samanburð við Norðurlöndin. Þetta kemur fram í viðtali visir.is við Rannveigu Þórisdóttur og Kristján Ólaf Guðnason hjá lögreglunni, en í skýrslunni er leitað skýringa á umtalsverðri fækkun umferðarslysa síðustu ár.
Fram kemur að frá árinu 2008 hefur slysum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 30% og um 32% á landsvísu. Með skýrslunni er brugðist við almennum skýringum sem kastað hefur verið fram um orsök fækkunar slysa, svo sem að hærra eldsneytisverð hafi dregið úr umferð og breytt aksturslagi. Staðreyndin er hins vegar sú að umferðarþunginn hefur sveiflast og er sá sami árið 2012 og 2008. Samkvæmt upplýsingum frá slysaskráningu Samgöngustofu hefur slysum vegna áhættuhegðunar fækkað mjög. Sýnileiki lögreglu, aukið og breytt eftirlit, breytt lagaumhverfi varðandi punktasöfnun og akstursbann ungra ökumanna auk breytingar í tilhögun ökukennslu kunna að spila þar inn í. Einnig má nefna mikilvægi vegbóta á stöðum þar sem slys hafa verið tíð.

Sjá má fréttina í heild sinni hér