Síminn hvetur ökumenn til að nota ekki síma

23.7.2013

Samgöngustofu og Síminn hafa í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hrundið af stað átaki sem heitir Höldum fókus og er til þess gert að vara ökumenn við því að nota síma á meðan á akstri stendur. Fátt er eins truflandi og notkun síma á meðan á akstri stendur og eru fjöldi óhappa og slysa rakin til þess að ökumenn hafi haft athyglina á símtækinu í stað vegarins og umhverfis á meðan á akstri stendur. Víða um heim er talað um símanotkun við akstur sem eitt af alvarlegustu orsakavöldum umferðarslysa og má sem dæmi nefna að fram hefur komið í fréttum að fleiri ungmenni deyi af völdum símanotkunar á vegum Bandaríkjanna en vegna ölvunar. Það er því mikilvægt að ná athygli ökumanna hvað þetta vandamál varðar og undirstrika ábyrgð þeirra.

Stærsti áhættuhópurinn eru ungir ökumenn og því var ákveðið að fara leið sem líklega hæfir best þeim aldurshópi. Það sem er óvenjulegt við þetta verkefni er að það á sér eingöngu stað á samskiptamiðlinum facebook. Með því að fara inn á verkefnið og kemst notandinn í gagnvirkt samband við ökumann sem við köllum Áróru Magnúsdóttur. Notandinn á síðan sjálfvirk símasamskipti við hana á meðan hægt er að fylgjast með henni aka bílnum á meðan á símasamskiptunum stendur. Ekki skal hér upp látið hvernig þau samskipti enda en sjón og heyrn er sögu ríkari. 

Okkur langar að hvetja þig til að fara inn á www.holdumfokus.is og prófa með því að skrá inn facebook-aðgang og GSM símanúmer. Einnig er mikilvægt að hafa símann við hendina svo hægt sé að upplifa þessi gagnvirku samskipti við Áróru. Best er að nota Google Crome, Safari, Firefox eða yngri útgáfu af Explorer en 9.
Ekki er vitað til þess að svona verkefni hafi verið unnið áður þar sem sími er virkjaður með þessum hætti en hugmyndin að þessu verkefni kemur frá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötu og önnuðust þeir framkvæmd og gerð efnissins í samstarfi við stafsmenn Símans.

Auk þess að vera nýstárlegt og óvenjulegt verkefni þar sem tæknimöguleikar eru nýttir til hins ítrasta er jafnframt athyglivert að Síminn er með þessu verkefni að hvetja viðskiptavini sína til að nota ekki þjónustu sína á meðan á akstri stendur.

Að lokum má geta þess að verkefnið fór af stað um klukkan 9:00 í morgun og klukkan 14:30 voru á sama tíma 957 einstaklingar inni á Höldum fókus og frá því í morgun höfðu verið rúmlega 27.600 heimsóknir.

  Sviðsett mynd
Sviðsett mynd. Ljósmynd Einar Magnús Magnússon