Fimmta árið sem Umferðarstofa telst fyrirmyndarstofnun

24.5.2013

Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins og Fyrirtæki ársins 2013 voru kynntar síðdegis í dag á Hilton Reykjavík Nordica Hótel að viðstöddu fjölmenni. Stofnanir ársins eru þrjár, hver í sínum stærðarflokki. Sérstakur saksóknari er sigurvegari þriðja árið í röð í flokki stórra stofnana með fleiri en 50 starfsmenn en Umferðarstofa er í öðru sæti. Í hverjum flokki hlutu efstu stofnanirnar sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun. Þær eru auk Sérstaks saksóknara og Umferðarstofu í flokki stærstu stofnana, Lyfjastofnun, Ríkisskattstjóri og Sjálfsbjargarheimilið.

Þetta er í fimmta sinn sem Umferðarstofa er valin fyrirmyndarstofnun af starfsmönnum sínum en í tvö skipti þar af hlaut stofnunin titilinn Stofnun ársins. Mikil áhersla hefur verið lögð á mannauðsstjórnun hjá Umferðarstofu og hafa ýmis stjórntæki verið notuð í þágu þess með góðum árangri. Með þessari viðurkenningu og niðurstöðu í könnun meðal starfsmanna Umferðarstofu er vitnað um þá ánægju sem almennt ríkir á vinnustaðnum. Þess má jafnframt geta að árið 2006 aðeins 4 árum eftir að Umferðarstofa var stofnuð var hún valin ríkisstofnun til fyrirmyndar en það var viðurkenning sem fjármálaráðherra veitti fyrir góða þjónustu, skilvirkni, hagkvæmni og árangur í ríkisrekstri en tilgangurinn með því vali var að hvetja stofnanir til dáða í þessum efnum.

Þetta er í áttunda sinn sem SFR tekur þátt í könnuninni, en hún er unnin af Capacent í góðu samstarfi við VR, St.Rv. og fjármálaráðuneytið og er ein sú stærsta sinnar tegundar á landinu. Tæplega 50 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði fengu könnunina send og er val á Stofnunum ársins byggt á svörum 10.000 opinberra starfsmanna.

 Myndir frá afhendingu viðurkenningar þess að Umferðarstofa sé fyrirmyndarstofnun árið 2013
Frá vinstri sést Dagný Jónsdóttir forstjóri Umferðarstofu veita viðurkenningunni viðtöku úr höndum Árna Stefáns Jónssonar formanns SFR. Við hlið Dagnýjar standa Gunnar Geir Gunnarsson framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs og Ólöf Friðriksdóttir framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs. Á myndinni hægra megin er auk fyrrnefndra forsvarsmanna Umferðarstofu Marta Jónsdóttir yfirlögfræðingur.