Skyndiskoðun á bílaleigubílum gekk vel

24.5.2013

Í dag hefur staðið yfir sérstakt eftirlit með ástandi og öryggi bílaleigubíla. Lögregluembætti á suður, suðvestur og vesturhluta landsins sameinuðust í þessu verkefni undir stjórn lögreglu Suðurnesja og að þessu sinni heimsótti lögregla bílaleigur á Suðurnesjum ásamt fulltrúum Umferðarstofu, rannsóknarnefndar umferðarslysa, Aðalskoðunar hf., Frumherja hf. og Vegagerðarinnar. Eftir hádegi stöðvaði lögregla umferð frá Leifsstöð og gerð var sérstök athugun á bílaleigubílum sem þaðan komu. Bílstjórar tóku þessu afskiptum lögreglu og skoðunarmanna almennt vel enda markmiðið að tryggja sem best öryggi þeirra og annarra vegfarenda og þá ekki hvað síst þeirra ferðamanna sem leggja upp í för um landið á bílaleigubílum.

Á undanförnum árum hefur þó borið á einstaka undantekningum frá þeirri almennu reglu að bíleigur hér á landi setja öryggi viðskiptavina sinna í öndvegi. Lögregla hefur haft til rannsóknar fjölda óhappa og slysa sem rakin eru til slæms ástands bílaleigubíla og hefur lélegt ástand hjólbarða verið sérstaklega áberandi. Í ljósi þessa var ákveðið að hrinda þessu átaksverkefni með skyndiskoðunum á bílaleigubílum.

Í kjölfar þessa verður farið yfir niðurstöður þeirra athugana sem gerðar voru í dag og lagt mat á hvort og með hvaða hætti nauðsynlegt er að hrinda af stað frekari aðgerðum. Ætlunin er að gera aftur sambærilega athugun á bílaleigubílum annarsstaðar á landinu í sumar.

Þetta átak er til að tryggja almennt umferðaröryggi og ekki hvað síst til að tryggja það að erlendir ferðamenn sem leigja sér bíla hér á landi geti treyst á öryggi þeirra og gæði.

Mynd frá skoðunarstöð