Sérstakt eftirliti með bílaleigubílum í dag

24.5.2013

Í dag verður hrundið af stað sérstöku átaki hvað varðar eftirlit með ástandi bílaleigubíla. Ætlunin er að kanna öryggi bílaleigubíla með hliðsjón af þeim reglum sem almennt gilda um skoðunarhæfi bifreiða.

Um er að ræða samstarfsverkefni lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Suðurnesja, Selfoss, Hvolsvallar, Borgarness og Dala með aðkomu Umferðarstofu, rannsóknarnefndar umferðarslysa, Aðalskoðunar hf., Frumherja hf. og Vegagerðarinnar en síðastnefnda stofnunin annast útgáfu starfsleyfa bílaleiga og hefur lögum samkvæmt eftirlit með að ákvæðum laga um bílaleigur sé fylgt.

Flestar bílaleigur á Íslandi veita fyrsta flokks þjónustu og setja öryggi viðskiptavina sinna í öndvegi. Á undanförnum árum hefur þó borið á einstaka undantekningum frá þessari almennu reglu. Þær undantekningar hafa komið fram í slysum sem lögregla hefur haft til rannsóknar og kvörtunum sem bæði lögreglu og Umferðarstofu hefur borist. Einstaka dæmi eru um óviðunandi ástand og viðhald á bílaleigubílum og þá sér í lagi lélegra hjólbarða. Í gögnum lögreglu má sjá slys og óhöpp sem rekja má til lélegs ástands bílaleigubíla og hefur slíkum tilfellum fjölgað á undanförnum árum.

Í ljósi þessa var ákveðið að hrinda þessu átaksverkefni af stað og fyrir hádegi í dag er æltunin að heimsækja nokkrar bílaleigur og gera athugun á þeim ökutækjum sem þær eru að leigja út með svonefndri skyndiskoðun. Eftir hádegi er ætlunin að stöðva tímabundið alla umferð sem fer um Reykjanesbrautina frá Leifsstöð og gera sérstaka athugun á bílaleigubílum.

Þetta átak er til að tryggja almennt umferðaröryggi og ekki hvað síst til að tryggja það að erlendir ferðamenn sem leigja sér bíla hér á landi geti treyst á öryggi þeirra og gæði.

 Mynd frá skoðunarstöð. Myndin tengist ekki fréttinni