Forseti Alþjóða bílasambandsins verðlaunaður fyrir störf í þágu umferðaröryggis

17.5.2013

Jean Todt, forseta Alþjóða bílasambandsins (FIA),  voru í dag veitt World Telecommunication and Information Society verðlaun Alþjóðlegu fjarskiptasamtakanna fyrir árið 2013. Þau hlaut hann fyrir störf Alþjóða bílasambandsins í þágu umferðaröryggis en samtökin hafa komið umferðaröryggismálum á framfæri á heimsvísu með áherslu á notkun upplýsinga- og samskiptatækni.

Verðlaunin voru veitt á sérstökum degi upplýsinga- og samskipta, en í ár er þema dagsins umferðaröryggi. Er það í samræmi við átak Sameinuðu þjóðanna, Áratugur aðgerða (Decade of Action), sem Íslendingar eru þátttakendur í en markmið átaksins er að draga úr banaslysum í umferðinni fyrir árið 2020.

Í ræðum við verðlaunaafhendinguna var fjallað um mikilvægi upplýsingatækni þegar kemur að þróun öruggari bíla og búnaðar. Eins var mikilvægi þróunar innbyggðs samskiptabúnaðar til notkunar í bílum ítrekað. Með notkun slíkra kerfa má draga úr þeirri hættu sem röng notkun samskiptatækni við akstur getur skapað. Í því samhengi sýndi Felipe Massa, ellefufaldur sigurvegari Formúlu 1 kappakstursins, hvernig truflun á borð við farsímanotkun við almennan akstur getur skapað hættu, jafnvel meðal reyndra akstursíþróttamanna. Að lokum ítrekaði framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, Ban Ki-moon, mikilvægi fjölmiðlunar og samskiptatækni í umferðaröryggisstarfi heimsins.

Jean Todt var í heimsókn hér á landi í febrúar 2011 og við það tilefni þáði hann boð forseta Íslands herra Ólafs Ragnars Grímssonar.

Jean Todt og forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum 15. febrúar árið 2011.
Jean Todt og forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum 15. febrúar árið 2011.