Takmörkun á innflutningi og notkun barnabílstóla

26.4.2013

Þann 1. júlí tekur gildi breyting á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum en eftir þann tíma má einungis nota, markaðssetja, flytja inn og selja öryggisbúnað (barnabílstól eða bílpúða með eða án baks) sem uppfyllir evrópskar kröfur í ökutækjum samkvæmt reglum ECE nr. 44. 04 með síðari breytingum

Undanfarin ár hefur verið töluvert um að fólk hafi flutt inn öryggisbúnað fyrir börn frá Kanada og Bandaríkjunum en með þessari breytingu á reglugerðinni verður það  óheimilt nema að búnaðurinn uppfylli ECE nr. 44. 04. Sé búnaðurinn keyptur í Evrópu á hinsvegar að vera tryggt að hann uppfylli sett skilyrði fyrir innflutningi og notkun hér á landi.  Þetta bann nær einnig yfir innflutning til einkanota.

Breytingin er gerð í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2003/20/EB en markmið breytingarinnar er tvíþætt. Annars vegar að samræma reglugerðina betur við tilskipun 2003/20/EB og hins vegar að stuðla enn frekar að auknu öryggi barna í ökutækjum.

Í reglugerðinni segir:

6. gr.

Öryggis- og verndarbúnaður barna sem notaður er í ökutækjum skal merktur og ávallt uppfylla þær kröfur sem kveðið er á um í III. viðauka í reglugerð þessari.

7. gr.

Innflutningur, markaðssetning og sala öryggisbúnaðar barna í ökutækjum.

Einungis má flytja inn, markaðssetja og selja öryggis- og verndarbúnað barna til notkunar í ökutækjum að uppfylltar séu kröfur til slíks búnaðar í samræmi við III. viðauka í reglugerð þessari.

Ákvæði þetta á við um allan innflutning, hvort sem hann er vegna einkanota eða í viðskiptalegum tilgangi.

Og í III. viðauka segir:

Frá og með 1. júlí 2013 verður hann svohljóðandi:

Öryggis- og verndarbúnaður barna í ökutækjum skal uppfylla kröfur samkvæmt reglum efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE), ECE-reglur nr. 44.04, sbr. og tilskipun 77/541/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi öryggisbelti og aðhaldsbúnað í vélknúnum ökutækjum að tækniframförum, með síðari uppfærslum reglnanna og tilskipunarinnar.

Merking þess efnis skal vera á áberandi stað á búnaðinum þannig:

 

Fjölskylda á hjólum og öll að sjálfsögðu með hjálm

eða í samræmi við tilskipunina með síðari breytingum:

 

e18 merki

Talan á eftir e merkinu vísar til þess lands sem varan er framleidd í.

Gott að vita:

·         Ef ætlunin er að nota búnað í bandarískan bíl þá er best að kaupa barnabílstól með ISOFIX sem er sambærilegt „latch“ í Bandaríkjunum

·         Ef búnaðurinn uppfyllir áðurnefndar reglur er hann merktur ECE 44.03 eða 44.04.