Öryggisbúnaður í umferðinni til varnar alvarlegum afleiðingum heilaáverka

26.4.2013

Mánudaginn 15. apríl síðastliðinn varði Jónas G. Halldórsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, doktorsritgerð sína „Heilaáverkar á íslenskum börnum, unglingum og ungu fólki á fullorðinsaldri: Nýgengi, algengi, langtímaafleiðingar og batahorfur”. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa m.a. til kynna mikilvægi notkunar öryggisbúnaðar í umferðinni í fyrirbyggjandi tilgangi.

Um rannsóknina

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi, algengi og afleiðingar heilaáverka á ungum aldri, meta forspárgildi þátta hvað snerti batahorfur og að styðja við þróun fyrirbyggjandi aðgerða og íhlutunar. Í rannsóknarhópi voru einstaklingar á aldrinum 0-19 ára sem greindir voru með heilaáverka á árunum 1992-1993 og var þeim fylgt eftir í 16 ár. Til samanburðar var valinn hópur úr Þjóðskrá árið 2008. Við úrvinnslu var stuðst við læknisfræðileg gögn um eðli og alvarleika áverka í rannsóknarhópnum auk svara úr spurningalistum sem þátttakendur í báðum hópum svöruðu.

Mikilvægi öryggisbúnaðar í fyrirbyggjandi tilgangi

Athygli vekur að vísbendingar eru um að hlutfall alvarlegustu heilaáverkanna hafi lækkað séu niðurstöður rannsóknarinnar bornar saman við niðurstöður rannsóknar Kristins Guðmundssonar á heilaáverkum barna á tímabilinu 1973-1980. Ætla má að framfarirnar megi þakka fyrirbyggjandi aðgerðum og slysavörnum, svo sem aukinni notkun öryggisbelta, barnabílstóla og hlífðarhjálma á níunda áratugnum.

Að sama skapi sýna niðurstöður rannsóknarinnar að þyngd höfuðhöggs hefur forspárgildi um síðbúnar afleiðingar heilaáverka. Þar sem alvarlegustu heilaáverkarnir voru ekki síst tengdir umferð og vélknúnum ökutækjum er ljóst að mikilvægi notkunar öryggisbúnaðar í umferðinni er umtalsvert, sem og að hraðatakmarkanir séu virtar og aðgát sé höfð við aksturinn. 

Nánari upplýsingar um doktorsvörnina má finna hér 

Fjölskylda á hjólum, að sjálfsögðu með hjálma