Varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki

19.4.2013

Oft ríkir óvissa meðal ökumanna, sérstaklega stærri bíla, um það hvenær óhætt er að halda áfram leiðar sinnar og hvenær er öruggast að bíða af sér veðrið.  Til þess að bregðast við þessari óvissu hafa Umferðarstofa, VÍS, Sjóvá og Vegagerðin, með aðstoð sérfræðinga, útbúið varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki. Hér má  nálgast mynd af skjalinu. Um er að ræða lista yfir aðstæður; vindhraða, færð og eðli ökutækis og hvernig best er að bregðast við samspili þessara þriggja þátta.  Samskonar viðmið hafa verið notuð í rúman áratug og reynst vel auk þess sem byggt er á erlendum rannsóknum og mati helstu sérfræðinga landsins í samspili veðurs, vega og ökutækis.
 
Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögum lenda á hverju ári tugir vöruflutningabifreiðir í umferðarslysum þar sem ökutækin fara út af og velta vegna aksturs í slæmri færð og/eða vegna mikils vinds. Í tölum frá Umferðastofu kemur frá að 548 vörubifreiðir lentu út af eða í veltum á tímabilinu 2002-2011 eða um um 55 á hverju ári. Í þeim urðu 4 banaslys og 24 alvarleg slys. Því er mikilvægt að fyrirtæki með vöruflutninga- , fólksflutningabifreiðir eða önnur stór ökutæki hugi vel að færð og vindafari áður en lagt er af stað á þjóðvegi landsins.
 
Á Vegasjá Vegagerðarinnar, http://vegasja.vegagerdin.is, má sjá í rauntíma þá staði þar sem tilefni er til aðgæslu vegna vinds og má þar einnig sjá meðfylgjandi varúðarviðmið sem og nánari upplýsingar um vindhviður og hviðustaði.  Annars staðar á vef Vegagerðarinnar, á forsíðunni sem og hér: http://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/ má sjá upplýsingar um vind, veður, færð og ástand vega og mælum við eindregið með því að þær upplýsingar séu hafðar til hliðsjónar í daglegum rekstri.
 
Það er von okkar sem að þessum viðmiðum standa, að ökumenn landsins tileinki sér þau og hafi þau í huga þegar tvísýnt er um öryggi.  Einnig er það von okkar að fyrirtæki sem gera út stór ökutæki hafi öryggið að leiðarljósi og fylgi þessum viðmiðum í sinni starfsemi.

Vörubíll ekur úr jarðgöngum