Slysaskýrsla Umferðarstofu 2012 komin út

18.4.2013

Út er komin slysaskýrsla Umferðarstofu fyrir árið 2012 og voru helstu niðurstöður hennar kynntar á blaðamannafundi sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í morgun. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti erindi og Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu fór yfir helstu atriði skýrslunnar. Hér má sjá skýrsluna og hér er aðgangur að kynningu sem flutt var á blaðamannafundi.

Í skýrslunni eru ítarlegar upplýsingar um umferðarslys árið 2012, þróunina undanfarin ár og þau markmið sem sett hafa verið. Óhætt er að segja að niðurstöður hennar séu á margan hátt sögulegar. Skýrslan er mikilvægt verkfæri til að greina áhættuþætti og þróun umferðaröryggis og ekki hvað síst til að sjá á hvaða atriði í forvörnum þurfi helst að leggja áherslu á.  Umferðarslys kosta íslensks samfélag á hverju ári fjölda mannslífa fyrir utan samfélagslega kostnað sem telur á tugum milljarða króna.

Mikil fækkun slasaðra og látinna

Árið 2012 má segja að hafi verið mjög gott í flesta eða alla staði.  Ljóst er að síðustu ár hefur náðst árangur í umferðaröryggismálum á Íslandi og bera tölur ársins 2012 þess glöggt vitni (sjá kafla 2. bls. 41).  Fjöldi látinna árið 2012 var 9 sem er um 28 á hverja milljón íbúa sem er með því allra lægsta sem gerist í heiminum.  Síðastliðin fimm ár (2008-2012) hafa 58 látist í umferðarslysum á Íslandi en næstu fimm ár þar á undan (2003-2007) létust 111 með sama hætti.  Er þetta um 48% fækkun.  Alvarlega slösuðum fækkar á milli ára úr 154 í 136 eða um 12% fækkun.  Lítið slösuðum fækkar einnig talsvert, úr 1063 í 899 (15%).  Í heildina fækkar látnum og slösuðum úr 1229 í 1044 eða um 15%.

9 létust í umferðinni 2012

Árið 2012 létust 9 einstaklingar í umferðinni á Íslandi, sjö karlmenn og tvær konur (sjá kafla 3 bls. 53) Fjórir voru á aldrinum 21-25 ára og fimm á aldrinum 62-82 ára, þar af þrír á aldrinum 80-82.  Enginn lést af völdum ölvunar við akstur þetta árið og er það í fyrsta skipti svo langt sem skráningar ná eða a.m.k. síðan árið 1986 (sjá nánar um ölvunarakstur í kafla 4 á bls. 61). Hins vegar lést einn af völdum fíkniefnanotkunar og einn vegna löglegra lyfja.  Tveir fótgangandi létust, einn farþegi bifreiðar og sex ökumenn.  Af þeim sjö banaslysum þar sem ökumenn eða farþegar létust var um útafakstur að ræða í sex tilfellum og árekstur í einu tilfelli.  Tveir létust á höfuðborgarsvæðinu, báðir fótgangandi.

Þáttaskil sem vonandi verða til frambúðar

Þegar skoðuð eru síðustu tíu ár sést að á árinu 2012 eru margar slysatölur þær lægstu sem sést hafa í langan tíma.  Allar tölur yfir slys og slasaða eru undir meðaltali síðustu tíu ára.  Fjöldi alvarlega slasaðra hækkaði í nokkur ár fram til ársins 2010 en hefur síðustu tvö ár fallið nokkuð hratt og er það vonandi að sú þróun haldi áfram (sjá nánar í kafla 2 á bls. 41).

Aldrei hafa eins fá börn slasast í umferðinni eins og árið 2012 ef að minnsta kosti er miðað er við þann gagnagrunn  sem stuðst er við en hann er frá 1986. Ef horft er til heildarfjölda slasaðra og látinna barna undanfarin 10 ár þá kemur í ljós að meðaltals fjöldi er 120. Árið 2012 var heildarfjöldi  88 en tekið skal fram að ekkert barn lét lífið en yngsta fórnarlamb umferðarslyss var 21. árs ökumaður.

Það telst jafnframt sögulegt að ekkert banaslys varð í fyrra af völdum ölvunar en þess ber þó að geta að hlutfall ölvunaraksturs af heildarfjölda slysa er lítilsháttar hærra árið 2012 en meðaltal 10 ára á undan. Meðaltalið er 5,3% en árið 2012 var það 5,7%.
 
Aldrei hefur samanlagður fjöldi látinna og slasaðra gangandi vegfarenda verið lægri en 2012 miðað við fyrrnefndan gagnagrunn.

Fjöldi slysa þar sem ungir ökumenn á aldrinum 17 – 20 ára koma við sögu hefur aldrei verið lægri.

Íslenskri vegfarendur með þeim öruggustu í heimi árið 2012

Við samanburð við önnur lönd þarf ætíð að notast við fjölda látinna m.v. höfðatölu (sjá kafla 2.6.2 á bls. 52).  Fjöldi slysa og slasaðra er ekki raunhæfur samanburður í dag og skýrist það bæði af mismunandi skilgreiningum á meiðslum og mismunandi umfangi skráningar (og þá mismikilli vanskráningu).  Samanburður við hin Norðurlöndin sýnir að Ísland náði bestum árangri árið 2012 með 2,8 látna á hverja 100.000 íbúa.  Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru öll með svo að segja sama fjölda látinna m.v. höfðatölu (3,1 á hverja 100.000 íbúa) en Finnar eru svo þar fyrir ofan.  Banaslysatíðni á Norðurlöndum hefur löngum verið með því allra lægsta sem gerist í heiminum og virðist svo ætla að vera aftur þetta árið.  Nánar má sjá um þennan samanburð í kafla 2.6.2.

Greinileg áhrif af fyrirbyggjandi aðgerðum

Slysum meðal ungra ökumanna á aldrinum 17 – 20 ára hefur eins og fyrr sagði fækkað mjög og þá sérstaklega frá árinu 2007 þegar svokallað akstursbann var sett í lög. Samkvæmt því er handhafi bráðabirgðaskírteinis settur í ótímabundið akstursbann ef hann fær 4 punkta í ökuferilsskrá og/eða er sviptur ökuréttindum vegna alvarlegra umferðarlagabrota. Akstursbanninu er ekki aflétt fyrr en að loknu sérstöku námskeiði og endurtöku ökuprófs. Þótt sviptingin vegna hraðaksturs eða ölvunar sé tímabundin þá fær sá sem er á bráðabirgðaskírteini ökuréttindin ekki aftur fyrr en að loknu fyrrnefndu námskeiði og ökuprófi. Ljóst er að gríðarlegur árangur hefur náðst í fækkun slysa meðal nýliða í umferðinni með setningu laga um akstursbann árið 2007.

Ökuskóla 3, sem settur var fyrst á fót árið 2010, hefur sannað gildi sitt og á án efa mikinn þátt í því að ungir ökumenn eru betri bílstjórar í dag en áður. Í Ökuskóla 3 gefst nemendum kostur á að prófa m.a. veltibíl, skrikbíl og fá að upplifa margt það sem gerist í aðdraganda umferðarslyss og undir leiðsögn kennara læra þau hvernig forðast má slíkar aðstæður.

Umferðarstofa hefur á undanförnum árum unnið að sérstökum fræðsluverkefnum í framhaldsskólum landsins þar sem nemendur eru látnir vinna verkefni í tengslum við fræðslumyndir sem starfsmenn Umferðarstofu hafa unnið. Í myndunum segja aðstandendur, fórnarlömb og gerendur alvarlegra slysa sögu sína. Fæstar þessara mynda hafa verið sýndar opinberlega og því eru nemendurnir að sjá þær í fyrsta skipti.

 Þetta verkefni er aðeins brot af því mikla fræðslustarfi sem unnið er í sambandi við unga ökumenn en þessi verkefni hafa sýnt og sannað að slík fræðsla á fullt erindi til ungs fólks. Ekki síst vegna þess áhuga og þroska sem nemendur skólanna hafa sýnt í tengslum við þau.

Það er því ljóst að margt það unga fólk sem nú er að feta sína fyrstu leið á vegum landsins er til mikillar fyrirmyndar og óhætt að trúa því að þau vitni um bjarta framtíð umferðaröryggis á Íslandi.

Flest markmið náðust árið 2012

Árið 2012 gekk mjög vel m.t.t. markmiða umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda og undirmarkmiða (sjá kafla 1.8 bls. 39).  Markmiðið um fækkun slasaðra sem og flest undirmarkmiðin miðast við 5% fækkun á hverju ári.  Árið 2012 er því um að ræða markmið upp á 9,75% fækkun frá núllpunktinum sem var meðaltal áranna 2006-2010.  Skv. þessum markmiðum stefndum við að því að ekki fleiri en 182 myndu látast eða slasast alvarlega árið 2012.  Niðurstaða ársins er 145 látnir og alvarlega slasaðir sem er 20% undir markmiðum og eru þetta því sérstaklega ánægjulegar niðurstöður.

Undirmarkmiðin líta að sama skapi flest mjög vel út.  Sem dæmi má nefna að alvarlega slasaðir bifhjólamenn eru 41% undir markmiðum og slys vegna hliðaráreksturs eru 36% undir markmiðum.  Stærstu fréttirnar eru þó e.t.v. þær að slys þar sem ungir ökumenn, 17-20 ára, koma við sögu eru 47% undir markmiðum.  Á árunum 2006-2010 voru að jafnaði 308 slys þar sem ökumenn á aldrinum 17-20 ára komu við sögu.  Markmið ársins 2012 voru að þessi slys yrðu ekki fleiri en 278 en niðurstaðan er sú að þau voru aðeins 146.  Er þetta eins og áður segir 47% undir markmiðunum og er þetta 53% fækkun frá árunum 2006-2010.  Fjöldi slasaðra óvarinna vegfarenda er 6% yfir markmiðum.  Er þetta fækkun frá árunum 2006-2010 en ekki nægileg fækkun m.v. okkar markmið.  Slasaðir útlendingar eru talsvert yfir markmiðum (24%) og er þetta eina undirmarkmiðið þar sem um fjölgun er að ræða.  Nánar má sjá um markmiðin og undirmarkmiðin í kafla 1.8.

  Tveir bílar mætast á blindhæð