Dauðaslys eru alltaf óásættanleg

12.4.2013

FÍB gekkst fyrir morgunfundi  9. apríl sl. um vegi sem verja líf og heilsu vegfarenda ef slys eða óhapp á sér stað.  Er athyglinni þar með beint að umhverfi vegarins og því sem hugsanlega getur valdið hættu.  Ásamt FÍB standa að fundinum innanríkisráðuneyti, Samtök fjármálafyrirtækja og Vegagerðin. Fyrirlesari var  Michael G. Dreznes, aðstoðarforstjóri International Road Federation.  Fyrirlestur hans nefnist Forgiving Highways, sem útleggja mætti sem verndandi vegi.  Hann sagði að ár hvert létu 1,3 milljónir manna lífið í umferðarslysum í heiminum og þar af væri um að ræða slys þar sem einn bíll kemur við sögu í um þriðja hverju tilviki, eða í yfir 400 þúsund slysum.  Þá sagði hann að ölvun við akstur væri orsök í um 20% dauðaslysa.  Sett hefur verið fram markmið um að fækka slíkum tilvikum um 50% innan tíu ára. Þess vegna skiptir öryggi vega og umhverfis þeirra gríðarlega miklu máli til að fækka dauðaslysum.

Dreznes sagði að mistökum í umferðinni verði aldrei útrýmt. Ökumenn séu aðeins mannlegir og því er vitað mál að þeir muni sofna undir stýri, gleyma sér við að hækka í útvarpinu eða kíkja á símann, keyra of hratt eða undir áhrifum. Slík mistök eiga hins vegar ekki að vera dauðadómur. Til þess þarf að smíða vegakerfi sem verndar vegfarendur.  Farið var yfir þá þrjá meginþætti sem skapa aukið umferðaröryggi, en það er ökumaðurinn, ökutækið og vegurinn.  Allir þessir þættir þurfa að vera í lagi, eigi að vera hægt að skapa nauðsynlegt öryggi.

Mynd af kyrrstæðum bílum

Í fyrirlestrinum lagði Dreznes áherslu á ábyrgð þeirra sem annast hönnun og gerð vega og sagði að öryggi yrði alltaf að vera í fyrsta sæti.  Honum var tíðrætt gerð vegriða og taldi að rétt hönnuð vegrið gætu bjargað mörgum mannslífum ár hvert.  Hann talaði einnig um frágang á endum vegriða og staðsetningu trjágróðurs og staura og stólpa á og við vegi.  Hann talaði auk þess mikið um ónauðsynleg dauðsföll í umferðinni, sem rekja mætti til galla við hönnun og sem tilteknar aðgerðir hefðu getað komið í veg fyrir.  Auk vegriða ræddi hann um gerð öryggissvæða við vegi og áleit að rétt hönnun þeirra gæti skipt miklu.
Aðalatriðið í allri þessari umræðu væri sú staðreynd að samfélög nútímans megi aldrei sætta sig við dauðann í umferðinni.