Leiðrétting vegna viðtals um metanbreytingar

3.4.2013

 Í viðtali við Jón Jónsson á bls. 8 í Fréttablaðinu í gær, þriðjudaginn 2. apríl, kemur fram gagnrýni á verklag Umferðarstofu varðandi metanbreytingar á bílum. Það gætir ákveðins misskilnings í þessu viðtali sem rétt er að leiðrétta.

Í fyrsta lagi annast starfsmaður Umferðarstofu ekki skoðun eða úttekt á metanbreytingum sem menn gera á bílum líkt og fullyrt er í viðtalinu. Slíkt eftirlit er á hendi faggiltra skoðunarstöðva - ekki Umferðarstofu.

Í öðru lagi gerir Umferðarstofa engar kröfur um að aðilar séu á lista ísetningaraðila til að geta annast metanbreytingar eða til að geta keypt búnað til þess eins og fram kemur hjá Jóni. Skilyrt er að viðkomandi hafi fengið leyfi Umferðarstofu til að breyta eldsneytiskerfi bifreiðar eins og áskilið er í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Fram kemur að viðmælanda Fréttablaðsins reynist erfitt að fá keyptan búnað til breytinga frá innflytjendum sem vel flestir eru að annast slíkar breytingar sjálfir og eru þ.a.l. í samkeppni um slíkar breytingar. Ef hann getur orðið sér út um þennan búnað t.d. erlendis frá þá ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að hann fái heimild fyrir breytingu á bíl svo lengi sem hann annast þær breytingar með réttum hætti og að bílinn standist breytingaskoðun á faggiltri skoðunarstofu. 

Í þriðja lagi skiptir það miklu máli að gengið sé rétt frá þessum búnaði þannig að fyllsta öryggis sé gætt og því er starfskunnátta og hæfni ísetningaraðila mikilvæg.

Mynd af fréttinni í Fréttablaðinu