Umferðaröryggisvika í maí

18.3.2013

Önnur umferðaröryggisvika Sameinuðu þjóðanna verður haldin dagana 6. til 12. maí næstkomandi.  Í þeirri viku verður áhersla lögð á öryggi gangandi vegfarenda.  Fyrsta vikan af þessu tagi var í apríl árið 2007 og var aðaláherslumálið þá ungir ökumenn. 
Meðal þess sem lögð er áhersla á í kynningarbæklingi um þessa viku er að vitund almennings um umferðarlög verði efld, einkum um ökuhraða, ölvun og akstur og almennt öryggi gangandi.  Þá skuli skoða hvort rétt sé að herða viðurlög vegna ofangreindra brota og leitað verði leiða til að fækka slysum á gangandi sem allra fyrst.   Er þar átt við lagfæringar á umferðarmannvirkjum og aðgerðir til að aðskilja umferð bíla og gangandi fólks eins mikið og kostur er.
Þessi vika er liður í verkefninu Áratugur aðgerða á sviði umferðarmála, en á þessum áratug hefur stefnan verið sett á að fækka banaslysum um 5 milljónir tilvika.  Fyrir liggur að í ríkjum innan Evrópusambandsins eru um 20% þeirra sem látast í umferðarslysum gangandi vegfarendur. Þá stendur vilji til að vekja athygli á hollustu göngu og góðum lýðheilsulegum áhrifum þess að ganga.