Börn fara of ung úr bílstólum
Haustið 2012 stóðu Umferðarstofa og Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrir könnun á öryggi grunnskólabarna í bílum. Náði hún til 500 barna í 10 sveitarfélögum víðs vegar um landið. Eitt helsta markmið könnunarinnar var að skoða notkun öryggis- og verndarbúnaðar hjá börnum á aldrinum 6 til 8 ára. Miðað er við að barn undir 150 sm noti viðurkenndan barnabílstól eða bílpúða með baki. Börn ættu ekki að nota eingöngu öryggisbelti fyrr en þau hafa náð áðurnefndri hæð þar sem beinagrind barna er ekki nægilega þroskuð til að taka við höggi frá öryggisbeltinu. Við árekstur getur beltið því veitt alvarlega áverka í kviðarholi barna, sé það notað eitt og sér.
Munur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar voru 37% 6 til 8 ára barna á landsvísu aðeins í öryggisbeltum, án viðeigandi öryggis- og verndarbúnaðar. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall barna sem eingöngu voru í bílbeltum 17% en á landsbyggðinni 59%. Þess má geta að meðalhæð 8 ára barna er 129 sm. Því er ljóst að töluverður fjöldi barna fer allt of fljótt úr bílstól eða af bílpúða með baki yfir í eingöngu bílbelti.
Eins og sjá má er notkun öryggis- og verndarbúnaðar hjá börnum á grunnskólaaldri minni á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður könnunarinnar sýna hins vegar ekki umtalsverðan mun á öryggisbúnaði drengja og stúlkna í hópi 6 til 8 ára barna út frá kyni barns, né heldur er kyn ökumanns afgerandi þegar kemur að notkun öryggisbúnaðar innan þess aldurshóps.
Framför í notkun belta meðal barna
Þess ber að geta að árið 2005 gerði Umferðarstofa könnun á öryggi grunnskólabarna í bílum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að 12% barna voru laus í bílnum, en í nýju könnuninni frá 2012 var hlutfall lausra barna aðeins 3,3% á landsvísu. Því má ætla að talsverð vitundarvakning hafi orðið hvað varðar öryggi barna í bílum á undanförnum árum og er það ánægjuleg þróun. En betur má ef duga skal og því er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Börn undir 150 sm eiga undantekningalaust að vera í bílstól eða á bílpúða með baki
- Flest slys verða innan 3 km frá upphafsstað
- Endingartími flestra barnabílstóla er 10 ár, en ungbarnastóla 5 ár. Hafi bílstóll orðið fyrir hnjaski ber að skipta honum út