Ítarlegar upplýsingar á vef Vegagerðarinnar

7.12.2012

Gífurleg þróun hefur orðið í framsetningu upplýsinga fyrir vegfarendur á vef Vegagerðarinnar.  Tölvutækni er beitt í miklum mæli og eru um 800 tæki  (mælitæki, gagnaöflunartæki og gagnvirk tæki) beintengd inn á vefinn, en hann tekur á móti um 300 þúsund færslum á sólarhring.  Með þessu móti standa vonir til að takast megi að auka umferðaröryggi töluvert.

105 sjálfvirkar veðurstöðvar

Það eru 105 sjálfvirkar veðurstöðvar á landinu og gefa þær upp vindhraða í metrum á sekúndu.  Um er að ræða tvær tölur, annars vegar meðalvindhraði síðustu tíu mínútur, en í sviga er gefin upp talan fyrir hvössustu hviður á þeim tíma.

Þá eru þar upplýsingar um magn umferðar.  Þar eru tvær tölur, fyrri talan sýnir fjölda ökutækja á síðustu tíu mínútum, en sú seinni frá miðnætti.
Sé smellt á nafn veðurstöðvarinnar á vefnum birtist línurit sem sýnir veðrið síðustu 48 klukkustundirnar.  Þessi gögn koma öll frá sjálfvirkum veðurstöðvum og sérstakt kerfi dregur úr líkum þess að villur komi fram þótt ekki sé hægt að útiloka það.  Hér má nálgast  upplýsingar sjálfvirku veðurstöðvanna. Hægt að skoða aðstæður í rauntíma

Við vegi landsins eru 85 vefmyndavélar.  Af þeim er hægt að sjá hvernig aðstæður eru á hverjum stað nánast á rauntíma.  Þær eru notaðar til að koma á framfæri upplýsingum áður en eftirlitsmenn og snjómoksturstæki fara  um veginn.  Með því móti er hægt að hafa tiltækar upplýsingar fyrr að morgni en ella.  Hér má sjá vefmyndavélar Vegagerðarinnar.  

Mælingar á hraða

Vegagerðin hefur sett upp umferðargreina á höfuðborgarsvæðinu og á leiðum út frá Reykjavík, auk nokkurra annarra staða á landinu. Þessir umferðargreinar mæla m.a. hraða ökutækja og bil milli bíla.  Með þeim hætti er auðveldara en ella að meta stöðu mála að því er varðar ökuhraða, auk þess að það skapar möguleika á að sjá hvort miklar umferðarteppur hafi myndast, hvor umferð hafi stöðvast eða sé miklu hægari en endranær. Hér má sjá upplýsingar um umferðargreina Vegagerðarinnar.

Farsímavefur Vegagerðarinnar

Vefur Vegagerðarinnar hefur verið lagaður að farsímum og bætir það þjónustu við ökumenn mikið.  Þar eru allar nauðsynlegar upplýsingar mjög aðgengilegar og skiptast í eftirtalda flokka.

  1. Tilkynningar um færð og aðstæður,
  2. veður,
  3. hálkuhætta og vindhviður,
  4. fjöldi ökutækja,
  5. vefmyndavélar,
  6. vegalengdir,
  7. Þjónustusímar.

Þetta auðveldar fólki á ferð mjög mikið að leita upplýsinga, sérstaklega þegar tíðar breytingar eiga sér stað. Farsímavefurinn er á slóðinni m.vegagerdin.is.
Ítarlegar upplýsingar á Vegasjánni.

Vegasjáin hefur tiltækar margvíslegar upplýsingar sem geta orðið mörgum sem leið eiga um vegi landsins að miklu gagni.  Hún veitir upplýsingar um þætti eins og veður og færð og allar vefmyndavélar eru aðgengilegar á honum.  Þar getur einnig að líta myndræna viðvörun um mikið hvassviðri og þar sem ástandið er verst kemur það mjög skýrt fram.  Einnig eru þar upplýsingar um vind, sem flutningsaðilar nýta sér til að ákveða hvort leggja beri upp í lengri ferðir og hafa fyrirtækin sett sé ákveðnar reglur í því sambandi.  Er þá mismunandi litur eftir því hvert viðvörunarstigið er, rauður þegar mesta varúð ber að sýna. Vegasjáin er með slóðina: vegasja.vegagerdin.is.

Aðalvefur Vegagerðarinnar er á: www.vegagerdin.is