Lítið um að hjólandi slasist alvarlega

19.11.2012

Sævar Helgi Lárusson sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa kynnti á Umferðarþinginu í dag niðurstöður rannsókna sem nefndin hefur gert á hjólreiðaslysum.

Við öflun upplýsinga um tíðni slysa og eðli þeirra var meðal annars leitað upplýsinga og gagna frá sjúkrastofnunun en hjólaslys eru talin vera vanskráð í slysaskráningu Umferðarstofu. Það skýrist einna helst af því að í slysaskráningu Umferðarstofu er stuðst við skýrslur lögreglu en mikill fjöldi þeirra hjólreiðamanna sem slasast án þess að vélknúið ökutæki komi við sögu leita ekki til lögreglu heldur leita sjálfir hjálpar á sjúkrastofnun.

Á tíu ára tímabili áranna 2002 til 2011 slösuðust að meðaltali 130 hjólreiðamenn á hverju ári. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda hjólreiðamanna og því er erfitt að leggja mat á það hve stór hluti þeirra slasast. Fram kom að hlutfall alvarlega slasaðra er lítið af heildarjfölda slasaðra. Áverkarnir eru því í flestum tilfellum lítt alvarlegir. Fram kom að ungir drengir eru í sérstakri hættu og meðal fullorðinna eru slysin mun fleiri meðal karlkyns hjólreiðamanna. Slysin verða helst síðdegis virka daga.