Metnaðarfull uppbygging hjólreiðakerfis

19.11.2012

 Grétar Þór Ævarsson, byggingarverkfræðingur hjá Mannvit flutti áhugavert erindi á Umferðarþinginu í dag þar sem hann kynnti m.a. áætlanir um uppbyggingu hjólreiðastígakerfis á höfuðborgarsvæðinu. Óhættt er að segja að áætlanir um lagningu hjólreiðastíga séu bylting í samgöngumálum hvað hjólreiða varðar. Mikil vinna verður lögð í verkið að hálfu sveitarfélaga og Vegagerðarinnar á næstu árum og er áætlað að stærstum hluta verkefnisins verði lokið árið 2015. 

Hjólreiðar mikilvægar

Hjólreiðar eru án efa einhver öruggasti og heilsusamlegasti ferðamáti sem hugsast getur. Hvað almenna lýðheilsu varðar má segja að fjármagni til þessara farmkvæmda sé vel varið.  Undanfarin ár hefur slysum á hjólandi fjölgað töluvert enda við því að búast í ljósi þess að hjólreiðar hafa aukist til muna á undanförnum árum. Í ljósi þessa þarf að bæta og auka uppbyggingu sérstakra hjólreiðastíga svo tryggja megi öryggi hjólandi og ekki hvað síst gangandi betur en nú er. Blöndun gangandi vegfarenda og hjólandi á gangstígum, líkt og heimilt er hér á landi, heyrir til undantekninga borið saman við það sem þekkist erlendis.

Bannað að hjóla á gangstígum erlendis

Hjólreiðar á gangstígum eru víðast hvar bannaðar erlendis en ástæða þess að slíkt er heimilt hér á landi skýrist einna helst af því að hjólreiðar voru áður fyrr lítið stundaðar. Auk þessa eru hjólreiðastígar ekki til hér á landi líkt og víðast hvar erlendis.

Grétar sagði einnig að öryggi hjólreiðamanna ykist samfara auknum fjölda hjólreiðamanna. Rannsóknir sýndu fram á það og reynsla víða erlendis.