Mbl.is hlaut Umferðarljósið

19.11.2012

Á Umferðarþingi í dag fór eins og venjulega fram afhending Umferðarljóssins, en það er viðurkenning til þeirra eða þess aðila sem lagt hefur sérstaklega mikið að mörkum til aukins umferðaröryggis. Fulltrúar Umferðarráðs velja þann aðila sem talinn er verðugur þess að hljóta þessa viðurkenningu. Að mati Umferðarráðs voru margir sem komu til greina en það var álit valnefndar að fjölmiðlar skipti miklu máli varðandi fræðslu, upplýsingaveitu og gagnrýni hvað umferðaröryggi varðar.

Það eru margir fjölmiðlar sem hafa sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga en að mati ráðsins hafa umfjallanir mbl.is verið sérlega vandaðar og ítarlegar og gert fréttamenn Morgunblaðsins verðuga viðtakendur Umferðarljóssins. Þetta mat byggir einkum á greinarflokki sem sjá mátti á mbl.is fyrr á þessu ári og hét "Váin á vegunum" en blaðamaðurinn Una Sighvatsdóttir vann að skrifum þessa greinarflokks og veitti hún umferðarljósinu viðtöku.