Fórnarlamba umferðarslysa minnst í dag

18.11.2012

Í dag, sunnudaginn 18. nóvember, er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa en frá árinu 1993 hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt aðildarríki til að tileinka þriðja sunnudag nóvember mánaðar minningu fórnarlamba umferðarslysa. Boðað var til minningarathafnar við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11 í morgun þar sem voru heiðraðar þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við spítalann stuttu fyrir athöfnina og síðan var ökutækjum viðbragðsaðila raðað upp við hlið hennar. Þarna gaf að líta fulltrúa allra þeirra aðila sem koma að björgun fólks og aðhlynningu þegar umferðarslys eiga sér stað. Þarna voru einnig þeir sem annast sálgæslu þeirra sem með einum eða öðrum hætti eiga um sárt að binda af völdum umferðarslysa.

Mikill fjöldi slasast á ári hverju

"Við getum glaðst yfir því hér í dag, þótt árið sé ekki enn á enda, að færri hafa látist í umferðarslysum á þessu ári en í fyrra. Þannig erum við vonandi smátt og smátt og nálgast þann árangur sem okkur hefur tekist varðandi sjómenn og sjófarendur," sagði forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson í erindi sínu. "Það er líka rétt að gleyma því ekki á þessum degi að á síðustu tíu árum hefur mikill fjöldi fólks látist í umferðarslysum hér á Íslandi og orðið fyrir alvarlegu heilsutjóni. Það eru um 188 Íslendingar sem hafa látist í umferðarslysum á síðustu tíu árum og 1.700 sem hafa orðið fyrir alvarlegum slysum. Það eru óhugnanlega háar tölur. Það háar að þær ættu að verða okkur öllum hvatning til þess að halda áfram á þeirri braut kynningar, fræðslu og hvatningar sem nauðsynleg er í þessu efni,“ sagði forsetinn. Hann vék síðan orðum sínum að þeim sem koma á vettvang slysa og hlúa að slösuðum og þeim sem eiga um sárt að binda. Þessum starfstéttum og sjálfboðaliðum þakkaði forsetinn sérstaklega.

Þurfa að bera þungar byrðar

Klukkan 11:15 var einnar mínútu þögn til minningar um þá sem látist hafa á vegum landsins. Að því loknu fluttu Áslaug Melax og Bára Benediktsdóttir stutt erindi. Áslaug missti stjúpdóttur sína, 13 ára gamla, í umferðarslysi á Siglufirði en 16. þessa mánaðar var nákvæmlega ár síðan slysið átti sér stað. Áslaug missti einnig móður sína í umferðarslysi þegar hún var 6 ára að aldri. Áslaug lýsti því hvernig reynsluheimur barns og unglings verður skyndilega stærri og meiri en hægt er að ætla við það að missa foreldri, vin, systkin eða einhvern annan sér náin í umferðarslysi. Bára talaði um mikilvægi þess að hlúa að aðstandendum þeirra sem lenda í umferðarslysum og ekki síst þeim sem valda slysum og lifa þau af. Þeir þurfa að bera erfiðar og þungar byrðar það sem eftir er lífs og því skiptir miklu að hlúð sé að þeim með viðeigandi hætti. Í hópi áheyrenda mátti sjá fólk með myndir af ættingjum sem það hafði misst í umferðarslysum.

Að lokinni formlegri athöfn héldu Ólafur Ragnar Grímsson forseti ásamt Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra inn á kaffistofu starfsmanna bráðamóttöku Landspítalans og færðu starfsfólkinu brauð og bakkelsi sem lítinn táknrænan þakklætisvott fyrir störf þeirra.

Aðstandendur minningardagsins

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða í umferðaröryggi annaðist undirbúning þessa verkefnis. Í þeim hópi eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagsins, Vegagerðarinnar, innanríkisráðuneytisins, Félags íslenskra bifreiðaeiganda, Landssambands hjólreiðamanna, Umferðarstofu, Landlæknisembættisins, velferðarráðuneytisins, Sniglanna, tryggingarfélaga, Lögregluskólans og Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Myndir frá athöfninni við Landspítalann Fossvogi