Minningardagur fórnarlamba umferðarslysa

15.11.2012

Boðað er til minningarathafnar við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11 sunnudaginn 18. nóvember 2012 þar sem minnst verður fórnarlamba umferðarslysa og jafnframt heiðraðar þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu. Frá árinu 1993 hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt aðildarríki til að tileinka þriðja sunnudag nóvember mánaðar minningu fórnarlamba umferðarslysa.

Aðstandendur minningardagsins

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða í umferðaröryggi annast undirbúning þessa verkefnis. Í þeim hópi eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagsins, Vegagerðarinnar, innanríkisráðuneytisins, Félags íslenskra bifreiðaeiganda, Landssambands hjólreiðamanna, Umferðarstofu, Landlæknisembættisins, velferðarráðuneytisins, Sniglanna, tryggingarfélaga, Lögregluskólans og Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Allir landsmenn hvattir til þátttöku

Landsmenn eru hvattir til að minnast á þessum degi þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni og þá sérstaklega á milli klukkan 11 og 12. Öllum er velkomið að taka þátt í athöfninni í Fossvogi en fólk er hvatt til að gæta þess sérstaklega að ökutækjum sé ekki lagt þannig að þau hindri aðgengi að bráðamóttöku Landspítalans. Farið hefur verið þess á leit við trúfélög og söfnuði að þeir minnist fórnarlamba umferðarslysa í hugleiðslu og predikunum dagsins.

Viðbragðsaðilar heiðraðir

Við Landspítalann koma saman fulltrúar þeirra starfsstétta sem kallaðar eru til þegar alvarleg umferðarslys eiga sér stað. Einnig verða viðstaddir forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra auk annarra gesta.

Reynslusögur aðstandenda

Klukkan 10:45, rétt fyrir athöfnina sem hefst klukkan 11:00, mun þyrla Landhelgisgæslunnar lenda við þyrlupall Bráðamóttökunnar. Að því loknu verður ökutækjum viðbragðsaðila sem koma á vettvang umferðarslysa stillt upp við þyrluna. Fulltrúar þessara starfsstétta stilla sér upp að baki forseta Íslands sem flytja mun stutt ávarp og boða einnar mínútu þögn klukkan 11:15. Fjölmiðlar eru hvattir til að vekja athygli á þessu.
Að lokinni einnar mínútu þagnarstund munu tveir aðstandendur sem misst hafa ástvini sína í umferðarslysum segja stuttlega frá reynslu sinni.

Dagskrá:
  • 10:45 Þyrla landhelgisgæslunnar lendir við Landspítalann Fossvogi. Að því loknu munu aðrir viðbragðsaðilar stilla ökutækjum sínum upp við þyrluna.
  • 11:00 Stjórnandi athafnarinnar setur samkomuna.
  • 11:05 Forseti Íslands flytur ávarp og segir m.a. frá tilefni dagsins.
  • 11:15 Mínútu þögn til minningar um fórnarlömb umferðarslysa.
  • 11:16 Stjórnandi kynnir 2 aðstandendur segja reynslusögur sínar.
  • 11:37 - 11:40 Stjórnandi segir athöfninni formlega lokið.

Þrjár samsettar myndir, skot úr herferðinni m.a. tjónaðir bílar