Grunnskóli á grænu ljósi

14.11.2012

Í morgun undirrituðu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra samning um átakið „Grunnskóli á grænu ljósi“. Um er að ræða sameiginlegt átaksverkefni ráðuneytanna þriggja og undirstofnana sem stuðla á að auknu umferðaröryggi grunnskólabarna.

Undirritunin átti sér stað í Ölduselsskóla og voru yngstu nemendur skólans viðstaddir og var boðið upp á ýmiss skemmtiatriði sem vöktu mikla kátínu meðal barnanna en atriðin virtust ekki síður gleðja þá sem eldri eru. Sýndu börnin ráðherrunum þakklæti sitt fyrir umhyggjuna með gjöfum sem þau færðu þeim að lokinni undirskrift.

Með samningnum er Umferðarstofu falið að virkja grunnskóla landsins í þessu átaki og mun Grundaskóli sem er móðurskóli umferðarfræðslu veita leiðsögn og aðstoð í þeim efnum.

Endurskinsmerki:

Í fyrsta lagi er lögð áhersla á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki. Með aukinni notkun á þeim má draga verulega úr slysum á gangandi vegfarendum. Þeir sem nota endurskinsmerki sjást margfalt  fyrr og betur en þeir sem nota þau ekki.  Hér má myndband sem sýnir  samanburð sem starfsmenn Umferðarstofu gerðu fyrir skömmu á einstaklingum með og án endurskinsmerkja. Samkvæmt þessari tilraun sést einstaklingur með endurskin allt að 7 sinnum fyrr en sá sem er án þess:

Öruggar ferðaleiðir:

Í öðru lagi að öruggar ferðaleiðir séu valdar.  Mikilvægt er að huga vel að öruggum göngu- og hjólaleiðum á milli skóla og frístundastaða. Það er öllum hollt að ganga til og frá skóla og mikilvægt að draga úr bílaumferð en hafa þarf í huga að oft er öruggasta leiðin ekki sú stysta. Mikill umferðarhraði og umferðarþungi er vandamál við marga skóla og íþróttamannvirki.

Skólaakstur:

Í þriðja lagi er athyglinni beint að öryggi barna er nota skólabíla. Nokkur fjöldi nemenda í grunnskólum á Íslandi kemur í skólann með skólabílum og því er mikilvægt að allir þekki þær reglur sem gilda og eiga að tryggja sem mest öryggi. Huga þarf að notkun öryggisbelta, því hvernig gengið er að og frá hópferðarbifreið og bílstjórar þurfa að gæta sérstakrar varúðar þegar ekið er framhjá skólabifreið. Hér er fræðslumynd sem Umferðarstofa hefur gert til upplýsingar um hvernig best er að tryggja öryggi sitt á ferð með skólabílum. 

Með samningnum hvetja ráðherrarnir  grunnskóla á Íslandi til að til að taka upp umfjöllun um mikilvægi þess að allir leggi sitt að mörkum við að tryggja umferðaröryggi með sérstakri áherslu á fyrrnefnd þrjú atriði.

Ljósmyndir frá blaðamannafundinumÁ myndinni vinstra megin má sjá yngstu nemendur Ölduselsskóla en hægra megin eru frá vinstri Dagný Jónsdóttir forstjóri Umferðarstofu, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Katrín Jakopsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem nutu félagsskapar og skemmtunar barnanna.