Nýjar reglur um gæðamerkingar hjólbarða

5.11.2012

Hjólbarðar eru tvímælalaust eitt mikilvægasta öryggistæki hvers bíls. Eina snerting bíla við akbraut er lófastór flötur á hverjum hjólbarða. Ástand þeirra getur skipt sköpum varðandi öryggi ökumanna og farþega þeirra. Eftir því sem viðnámið er meira við hemlun, þeim mun öruggari telst bíllinn, ekki síst við vetrarakstur , í hálku og mikilli bleytu.

Erfitt getur verið fyrir almenning að finna út hvaða dekk eru betri en önnur. Margir framleiðendur eru þó taldir framleiða betri dekk en aðrir og ýmsar rannsóknir og prófanir eru gerðar. Engin þeirra nær þó til allra dekkja og því verður mikil hagsbót og aukið öryggi fyrir neytendur, þegar öll dekk sem seld eru innan Evrópusambandsins þurfa að gangast undir sams konar prófanir og vera merktar samkvæmt niðurstöðum þeirra. Þær reglur taka gildi 1. nóvember og eiga þær einnig við hér á landi. Merkingarnar eiga að vera á álímdum miða á dekkjunum eða vera sýnilegar neytendum á annan hátt áður en kaupin fara fram.

Erfitt getur verið að ákveða hvers konar hjólbarðar henti hverjum og einum. Sumir þurfa reglulega að fara yfir fjallvegi á veturna og er rétt að hvetja þá til að vera með negld dekk undir bílum sínum. Aðrir fara sjaldan eða aldrei út fyrir þéttbýli og hafa þeir enga þörf fyrir nagladekk en hinsvegar eru góð vetrardekk nauðsynleg. Nú eru komnir á markað margskonar vetrarhjólbarðar sem hafa eiginleika sem veita nánast jafn mikið öryggi og negld dekk. En hver og einn verður að vega og meta út frá ferðavenjum sínum og aðstæðum hvaða dekk henta honum. Þá er fólk hvatt til að leita upplýsinga um gæði hjólbarða áður en þeir eru keyptir.

Eitt mikilvægt öryggisatriði varðandi hjólbarða er að hafður sé réttur loftþrýstingur í dekkjunum. Það getur til dæmis valdið hættu að það sé mismunandi loftmagni í dekkjum. Þá þarf að hafa góðar gætur á því hvort hjólbarðarnir séu misslitnir, en það getur gefið til kynna að ástæða sé til að fara með bílinn í hjólastillingu. Þá er áskilið að á sama ási skuli vera hjólbarðar af sömu stærð og gerð og mynstrið skal vera sambærilegt.