Umferðarstofa 10 ára

1.10.2012

Í dag, 1. október fagnar Umferðarstofa 10 ára starfsafmæli. Hún varð til með sameiningu Skráningarstofunnar og Umferðarráðs árið 2002. Rík áhersla var lögð á skipuleg og markviss vinnubrögð frá upphafi og settu menn sér skýr markmið.

Meginhlutverk Umferðarstofu er: Að auka lífsgæði með því að efla öryggi í umferðinni.

Forráðamenn Umferðarstofu hafa beint athyglinni að því að gera þjónustu eins góða og markvissa og mögulegt er. Umferðarstofa var valin ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2006, en fjármálaráðuneytið veitir þá viðurkenningu. Hún var valin Stofnun ársins 2009 og 2010. Það var rökstutt með góðum árangri í rekstri hennar. Á síðustu tíu árum hefur banaslysum í umferðinni fækkað mikið og tekist hefur að viðhalda þeim góða árangri undanfarin fimm ár. Þannig létust 25 að meðaltali á ári frá 2002 til 2006, en voru 13 síðustu fimm ár. Auglýsingar Umferðarstofu hafa löngum vakið mikla athygli og ljóst má vera að þær eiga mikinn þátt í afgerandi viðhorfsmótun landsmanna í umferðaröryggismálum. Hafa þær hlotið verðlaun, bæði hér á landi og erlendis. Þá hefur verið lögð mikil áhersla á að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu og einnig hefur rafræn þjónusta verið meðal verkefna.

Hjá Umferðarstofu starfa 55 manns og er hlutfall kvenna og karla nokkuð jafnt.

Mynd af fulltrúum Umferðarstofa við afhendingu verðlauna þegar Umferðarstofa lenti í öðru sæti sem stofnun ársins

Þessi mynd var tekin 11. maí 2012 þegar veittar voru viðurkenningar til stofnana og fyrirtækja ársins. Umferðarstofa var í öðru sæti en hefur tvisvar þar á undan verið í fyrsta sæti. Á myndinni sjást frá vinstri; Árni Stefán Jónsson formaður SFR, Gunnar Geir Gunnarsson framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu og Ólöf Friðriksdóttir framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs Umferðarstofu.