Göngum í skólann sett í 6. sinn

5.9.2012

Göngum í skólann var formlega sett í Kelduskóla í Grafarvogi í dag. Ísland tekur í sjötta sinn þátt í þessu alþjóðlega verkefni sem hófst í Bretlandi árið 2000. Það var Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem ýtti verkefninu úr vör en við athöfnina spilaði hljómsveitin Moses Hightower. Allir nemendur skólans voru viðstaddir athöfnina en að henni lokinni skelltu þeir sér í skó og regnföt og gengu hring um næsta nágrenni skólans.

Hvatning til aukinnar hreyfingar

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann. Farið er yfir reglur um öryggi á göngu og á hjóli á sama tíma og börnin eru frædd um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með verkefninu er einnig kappkostað að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.

Þeir sem að verkinu standa

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landlæknir, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli.