Ný lög um leigubifreiðaakstur taka gildi

31.3.2023

84.jpg-EYG-copy_1680275770516

lög um leigubifreiðaakstur nr. 120/2022 taka gildi 1. apríl næstkomandi. Markmiðið með lögunum er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi. Þá er lögunum ætlað að tryggja að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum).

Helstu breytingar með lögunum

  • Fjöldatakmarkanir verða afnumdar en skýr skilyrði sett um leyfisveitingar. Fjöldatakmarkanir voru áður í gildi á Akureyri, Árborg, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, á öðrum stöðum á landinu voru engar fjöldatakmarkanir.
  • Rekstrarleyfi veitir rétt til reksturs eins eða fleiri leigubíla. Áður veitti leyfið aðeins rétt til reksturs á einum bíl.
  • Veita má bæði einstaklingum og lögaðilum rekstrarleyfi. Áður mátti aðeins veita einstaklingum slíkt leyfi.
  • Rekstarleyfishafar skulu hafa afgreiðslu á leigubílastöð sem hefur fengið starfsleyfi hjá Samgöngustofu. Þó getur rekstarleyfishafi með einn leigubíl í sinni eigu eða umráðum rekið stöð án starfsleyfis frá Samgöngustofu.
  • Leigubílar skulu búnir gjaldmæli en þó er heimilt að aka án gjaldmælis þegar ferð er seld fyrir fyrirfram umsamið áætlað eða endanlegt heildargjald. Eftir sem áður skal verðskrá og þær forsendur sem umsamið gjald byggist á vera aðgengilegar viðskiptavini.


Samhliða lögunum tekur gildi reglugerð um leigubifreiðaakstur nr. 324/2023 þar sem nánar er kveðið á um útfærslu laganna. Nánari upplýsingar fyrir leyfishafa og umsækjendur má nálgast á vef Samgöngustofu www.samgongustofa.is/leigubilar

Lög um leigubifreiðaakstur nr. 120/2022
Reglugerð um leigubifreiðaakstur nr. 324/2023
Upplýsingasíða fyrir leyfishafa og umsækjendur