Nýr veltibíll frumsýndur

8.7.2020

Á morgun, fimmtudaginn 9. júlí kl 15, verður tekin í notkun nýjasta gerð af Volkswagen Golf sem er óvenjulegur fyrir þær sakir að í honum er engin vél enda er honum ekki ætlað að aka með hefðbundnum hætti um vegi landsins. Þess í stað mun bíllinn velta á völdum stöðum vítt og breitt um landið með fólk innanborðs - fest í öryggisbelti. 

Mynd af veltibílnum

Markmiðið með veltibílnum er að leyfa farþegum að finna hve mikilvægt er að nota bílbelti, hvort sem setið er í framsæti eða aftursæti. Þetta er sjötti og nýjasti veltibíll Brautarinnar í samstarfi við Heklu. Samgöngustofa tekur þátt í verkefninu með beltaherferðinni 2 sekúndur sem hvetur ökumenn til að spara sér ekki 2 sekúndur við það að spenna á sig öryggisbeltin.

Frumsýningin verður eins og áður segir kl. 15 fimmtudaginn 9. júlí við Perluna í Reykjavík og eru allir velkomnir að koma og skoða bílinn og sjá hann taka nokkrar veltur.