Rafskútur og umferðaröryggi
Skýrslan „Rafskútur og umferðaröryggi“ var gefin út á dögunum en hún er afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvaða áhrif rafskútur hafi á umferðaröryggi og hvaða þættir það eru sem helst ógna öryggi rafskútunotenda sem og annarra vegfarenda í umferðinni. Verkefnið var unnið af Svanhildi Jónsdóttur, Láru Margréti Gísladóttur og Ragnari Þór Þrastarsyni hjá VSÓ Ráðgjöf en fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Samgöngustofu og Vegagerðinni voru til ráðgjafar í verkefninu.
Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að vinsældir rafskúta eða rafhlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi enda frábær farartæki séu þau notuð rétt. Í skýrslunni má lesa um erlendar rannsóknir tengdar rafhlaupahjólum, rýna í tölfræði frá Samgöngustofu og bráðamóttöku Landspítalans frá árinu 2020 og hvaða öryggisreglur gilda á Íslandi og í öðrum löndum. Í skýrslunni kemur skýrt fram að aukin þjálfun og kennsla í notkun rafskúta minnki líkur á slysum og til að tryggja öryggi er ýmislegt hægt að gera, annaðhvort með lögum og reglum eða vinsamlegum tilmælum.
Í því samhengi bendir Samgöngustofa á upplýsingasíðu sína um rafhlaupahjól www.samgongustofa.is/rafhlaupahjol en þar má finna fræðslumyndband um rafhlaupahjól á íslensku , með enskum texta og með pólskum texta , einblöðunga til útprentunar á íslensku , ensku og pólsku ásamt algengum spurningum og svörum um notkun rafhlaupahjóla.