Samferða

Ný heildarstefna Samgöngustofu og nýtt útlit

13.6.2022

Samþykkt hefur verið ný heildarstefna Samgöngustofu fyrir tímabilið 2022 til 2024 og er hún vegvísir til þeirrar framtíðar sem við viljum byggja á komandi árum. Framtíðarsýnin vísar til þess að Samgöngustofa ætlar að vera samferða á þessari leið, bæði ytri hagaðilum og starfsfólki í að gera gott samfélag enn betra og samgöngur öruggari. Stefnan og stefnuáherslur byggja á fjórum meginverkefnum stofnunarinnar:

  • Skilvirk stjórnsýsla
  • Markviss þjónusta og upplýsingamiðlun
  • Faglegar leyfisveitingar og áhættumiðað eftirlit
  • Framsækið og öflugt innra starf

Kjarninn í starfsemi Samgöngustofu er öryggi í samgöngum. Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri mótun og aðlögun er nauðsynleg til að framþróun verði. Markmiðin ættu alltaf að vera framfarir milli ára og að staða okkar sé hið minnsta jafngóð og þeirra þjóða sem fremstar standa. Þáttur í þeirri vegferð er að stuðla sem best að öryggi fólks á ferðinni, óháð samgöngumáta. Margt hefur áunnist en alltaf má gera betur og okkar að vera samferða á þeirri leið.

Af þessu tilefni hefur Samgöngustofa opnað sérstakan stefnuvef þar sem hægt er að kynna sér stefnuna betur. Stefnuvefurinn er mikilvægur vettvangur til að hafa stefnuna aðgengilega fyrir okkur sem störfum eftir henni og ekki síður fyrir ytri samstarfsaðila sem tengjast starfi stofnunarinnar, en gott samstarf er lykilatriði væntinga og árangurs. Stefnuvefurinn verður lifandi vefur þar sem m.a. má sjá helstu verkefni í vinnslu sem miða að því að tryggja framgang stefnunnar.

Ný ásýnd Samgöngustofu

SGS-merkiat2x-landscisl-vefur

Samhliða nýju stefnunni fær Samgöngustofa nýja ásýnd og nýtt merki er nú kynnt til sögunnar ásamt öllu öðru kynningarefni. Í nýju merki Samgöngustofu rennur þrískipting Samgöngustofu (sigling, umferð og flug) saman í eina sjónræna sterka heild sem myndar bókstafinn S. Litirnir eru nútímalegir, ferskir og afgerandi. Nýja útlitið hentar vel í öllu stafrænu efni enda hefur áhersla á stafræna miðlun aukist á undanförnum árum. Lögð er áhersla á að við þurfum að vera samferða í þeirri vegferð okkar að gera samgöngur á Íslandi öruggari og umhverfisvænni, hvort sem við ferðumst í lofti, á láði eða legi. Hvort sem við keyrum, fljúgum, siglum, hjólum, notum rafskútur, bíla, flugvélar eða skip, þá eigum við öll samleið í því að sækjast eftir metnaðarfullum markmiðum hvað öryggi varðar.

Nýtt skipurit Samgöngustofu

Skipuriti Samgöngustofu hefur verið breytt til að styðja við þessa vegferð og styrkja enn frekar starfsemina á hverju fagsviði. Flug, siglingar og umferð tilheyra hvert fyrir sig sérstöku sviði sem njóta munu stuðnings stjórnsýslusviðs og skrifstofu forstjóra. Þannig verður athyglin skýrari á einstaka málaflokka og samlegð náð þar sem sameiginlegir fletir liggja. Vegferðin er hafin og margir þræðir sem þarf að spinna í nánu samstarfi við ytri hagaðila.

Fram undan eru spennandi tímar hjá Samgöngustofu, gangi okkur öllum vel við að tryggja öruggar samgöngur til framtíðar á Íslandi. Verum öll samferða í þeirri vegferð.

Stefna Samgöngustofu 2022-2024
Nýtt skipurit Samgöngustofu
Nýr hönnunarvefur Samgöngustofu