Skólabyrjun

umferðaröryggi til og frá skóla

24.8.2021

Þessa dagana eru um 4.500 börn að hefja sína fyrstu grunnskólagöngu um allt land og verða þar með virkir þátttakendur í umferðinni. Samgöngustofa hvetur forsjáraðila til að fylgja börnum sínum í skólann fyrstu dagana og velja öruggustu leiðina og æfa sig á henni. 

Þó að barnið geti gengið eitt í skólann er nauðsynlegt að það fái fylgd fyrstu dagana undir góðri leiðsögn frá fullorðnum fyrirmyndum. Einfaldar reglur og hollráð til hinna ungu vegfarenda eru frábært veganesti til framtíðar auk þess sem gönguferðin sjálf getur verið skemmtileg gæðastund.

Börn og unglingar nota alls konar farartæki til og frá skóla. Algengust eru reiðhjól, hlaupahjól, rafhlaupahjól og létt bifhjól og er mikilvægt að starfsfólk skóla, forsjáraðilar og nemendur kynni sér reglur og öryggisatriði er varða notkun slíkra tækja. Hér höfum við tekið saman atriði sem mikilvægt er að fara yfir með nemendum, heima og í skólanum, núna í upphafi skólaárs.