Starfsleyfi veitt í þágu aukins umferðaröryggis

8.1.2015

Nú í desember veitti Samgöngustofa í fyrsta skipti hæfisskírteini til umferðaröryggisrýna. Tilgangur öryggisrýni vegamannvirkja er að fækka umferðarslysum með ákveðinni aðferðarfræði sem Vegagerðin beitir við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttektir á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun. Umferðaröryggisrýnin felur í sér kerfisbundna, óháða úttekt á umferðaröryggi vegamannvirkja og er þannig óaðskiljanlegur hluti af hönnun og gerð þeirra á mismunandi stigum, þ.e. við forhönnun, verkhönnun, áður en mannvirki er tekið í notkun og innan árs frá því það er tekið í notkun.

Öryggisrýni vegamannvirkja nær til samevrópska vegakerfisins og hefur mjög rutt sér til rúms á undanförnum árum. Íslenska reglugerðin um öryggisstjórnun vegamannvirkja nr. 866/2011er innleiðing á Evróputilskipun 2008/96/EC (on road infrastructure and management) en hæfisskírteinin eru veitt á grundvelli reglugerðarinnar..

Til að hljóta starfsleyfi umferðaröryggisrýnis þurfa umsækjendur að hafa viðeigandi reynslu eða þjálfun í vegahönnun, tæknivinnu á sviði umferðaröryggis og slysagreiningu. Auk þess skulu þeir hafa tekið þátt í vinnu við umferðar­öryggisrýni eða –mat í að lágmarki þrjú skipti ásamt því að hafa setið námskeið Vegagerðarinnar um málefnið og lokið prófi með tilskildum árangri. Vegagerðin semur námsefnið og heldur námskeiðið en Samgöngustofa gefur út hæfisleyfi til þeirra sem uppfylla skilyrði til að sinna starfi umferðaröryggisrýna. Afhending hæfisskírteina

Ellefu hlutu þetta starfsleyfi: Auður Þóra Árnadóttir, Baldur Grétarsson, Bryndís Friðriksdóttir, Daníel Árnason, Erlingur Freyr Jensson, Erna Bára Hreinsdóttir, Gunnar H. Jóhannesson, Halldór Sveinn Hauksson, Heimir F. Guðmundsson, Hilmar Finnsson og Kristján Kristjánsson. Öll starfa þau hjá Vegagerðinni nema Bryndís, sem starfar hjá verkfræðistofunni Eflu.  

Samgöngustofa óskar leyfishöfum til hamingju