Þeirra minnst sem hafa látist í umferðinni

Rúmlega 1500 hafa látist í umferðinni á 100 árum

21.11.2016

Minnst var þeirra sem látist hafa í umferðarslysum með athöfn í morgun við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík. Jafnframt var þeim starfsstéttum þakkað sem veita hjálp og þjónustu þegar slys verður, svo sem bráðaliðum, heilbrigðisstarfsfólki, lögreglu, björgunarsveitum og Landhelgisgæslu.

Við athöfnina voru meðal annars fulltrúar lögreglu, heilbrigðisstétta, björgunarsveita, Landhelgisgæslu og stjórnvalda, svo sem Vegagerðar, Samgöngustofu og innanríkisráðuneytis. Einnig ættingjar sem misst hafa ástvini í umferðarslysum. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, stýrði athöfninni og flutti ávarp, forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp og Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður í Vík í Mýrdal, sagði frá reynslu sinni, meðal annars aðkomu að slysum. Minnst var sérstaklega þeirra sem hafa látist í umferðarslysum með einnar mínútu þögn.

Í setningarávarpi sínu sagði Ragnhildur Hjaltadóttir meðal annars að umferðarslysin væru of mörg og sagði þau valda mikilli þjáningu. Hún sagði slysum hafa fækkað undanfarna áratugi en síðustu misserin hefði þeim hins vegar fjölgað á ný: „En nú hefur þetta þróast á verri veg og slösuðum og látnum fjölgar á ný. Við verðum að grípa til aðgerða – við verðum að snúa vörn í sókn. Hvað er til ráða? Við eigum ýmis ráð.“ Ragnhildur sagði einn helsta orsakavald umferðarslysa vera áhættuhegðun, svo sem vímuefnaakstur og hraðakstur svo og mikið agaleysi í umferðinni. Þessu gætum við breytt. Þá minntist hún á aðgerðir stjórnvalda í umferðaröryggi, svo sem áróður og fræðslu, eftirliti í umferðinni og úrbótum Vegagerðarinnar, meðal annars á stöðum þar sem slys eru tíð.

„Bætt umferðaröryggi er ekki einfalt verk,“ sagði ráðuneytisstjórinn. „Við verðum að taka höndum saman, almenningur, vegfarendur, ökumenn. Virðum umferðarreglur, ökum ekki of hratt, spennum beltin, notum ekki síma undir stýri. Tökum höndum saman um að breyta hegðun okkar og hugsun.“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sagði að rúmlega 1500 manns hefðu látist í umferðinni hér á landi á u.þ.b. 100 árum. Hann fjallaði um ábyrgð okkar í umferðinni og sagði einnig brýnt að vinna jafnan að hvers kyns umbótum og merkingum á vegakerfinu sem verða mættu til að draga úr slysum. Í lok ávarps síns bauð hann til einnar mínútu þagnar í minningu þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.

Síðust talaði Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Vík í Mýrdal, en hún hefur einnig langa reynslu sem sjúkraflutningamaður. Lýsti hún reynslu sinni af því starfi og aðkomu að slysum. Eftir athöfnina þáðu viðstaddir hressingu í bílageymslu bráðamóttökunnar og forsetinn heilsaði einnig upp á starfsfólk á vakt í bráðamóttökunni.