#Ég á bara eitt líf
Minningarsjóður Einars Darra og Samgöngustofa taka höndum saman
Samgöngustofa og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eru að skipuleggja samvinnuvettvang til að sporna við auknum fjölda slysa vegna vímuefnaaksturs. Vandinn er víðtækur, slysin eru aðeins ein birtingarmynd lyfja- og fíkniefnavandans sem er mun stærra vandamál. Ætlunin er að margir hagaðilar komi að borðinu með sameiginlegu átaki.
Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rún Óskarsdóttir, fulltrúar forvarnarverkefnisins Ég á bara eitt líf, heimsóttu Samgöngustofu í síðustu viku og lýstu yfir vilja til samstarfs. Verkefni þeirra gengur út á að fræða ungt fólk um hætturnar sem fylgja notkun róandi og ávanabindandi lyfja. Sonur Báru og bróðir Andreu og Anítu, Einar Darri Óskarsson, lést á heimili sínu í maí síðastliðinn eftir neyslu róandi lyfja aðeins 18 ára gamall. Í kjölfar andláts hans stofnuðu aðstandendur Minningarsjóð Einars Darra.
Sérfræðingar öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu heimsækja árlega fjölda framhaldsskóla á landinu og hitta þar ökumenn framtíðarinnar. Með þessu samstarfi verður Samgöngustofa hluti af rýnihópi forvarnarfræðslu Ég á bara eitt líf og munu hóparnir taka höndum saman varðandi heimsóknir og forvarnar- og fræðsluefni framhaldsskólanema.
Á næstunni mun Samgöngustofa boða fulltrúa velferðar-, og heilbrigðisyfirvalda, menntastofnana, löggæslu og annarra hagsmunahópa til fundar til að ræða leiðir sem sameiginlega styrkja og styðja við varnir gegn margþættum birtingarmyndum þessa vímuefnavanda. Verkefnið Ég á bara eitt líf mun eiga fulltrúa á þeim fundi.
Hópurinn gaf öllu starfsfólki Samgöngustofu kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra, bleik armbönd, sem eru tákn um samstöðu og minna okkur á að við eigum bara eitt líf.
Kolbrún Guðný, Þórhildur Elín og Hildur frá Samgöngustofu eru hér með þeim Báru, Andreu Ýr og Anítu Rún frá Minningarsjóði Einars Darra.