#Ég á bara eitt líf

Minningarsjóður Einars Darra og Samgöngustofa taka höndum saman

3.9.2018

Samgöngustofa og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eru að skipuleggja samvinnuvettvang til að sporna við auknum fjölda slysa vegna vímuefnaaksturs. Vandinn er víðtækur, slysin eru aðeins ein birtingarmynd lyfja- og fíkniefnavandans sem er mun stærra vandamál. Ætlunin er að margir hagaðilar komi að borðinu með sameiginlegu átaki. 

Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rún Óskarsdóttir, fulltrúar forvarnarverkefnisins   Ég á bara eitt líf,  heimsóttu Samgöngustofu í síðustu viku og lýstu yfir vilja til samstarfs. Verkefni þeirra gengur út á að fræða ungt fólk um hætturnar sem fylgja notkun róandi og ávanabindandi lyfja. Sonur Báru og bróðir Andreu og Anítu, Einar Darri Óskarsson, lést á heimili sínu í maí síðastliðinn eftir neyslu róandi lyfja aðeins 18 ára gamall. Í kjölfar andláts hans stofnuðu aðstandendur Minningarsjóð Einars Darra.

Sérfræðingar öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu heimsækja árlega fjölda framhaldsskóla á landinu og hitta þar ökumenn framtíðarinnar. Með þessu samstarfi verður Samgöngustofa hluti af rýnihópi forvarnarfræðslu  Ég á bara eitt líf og munu hóparnir taka höndum saman varðandi heimsóknir og forvarnar- og fræðsluefni framhaldsskólanema.

Á næstunni mun Samgöngustofa boða fulltrúa velferðar-, og heilbrigðisyfirvalda, menntastofnana, löggæslu og annarra hagsmunahópa til fundar til að ræða leiðir sem sameiginlega styrkja og styðja við varnir gegn margþættum birtingarmyndum þessa vímuefnavanda. Verkefnið  Ég á bara eitt líf mun eiga fulltrúa á þeim fundi.

Hópurinn gaf öllu starfsfólki Samgöngustofu kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra, bleik armbönd, sem eru tákn um samstöðu og minna okkur á að við eigum bara eitt líf. 

Hópurinn fyrir framan lógó Samgöngustofu Kolbrún Guðný, Þórhildur Elín og Hildur frá Samgöngustofu eru hér með þeim Báru, Andreu Ýr og Anítu Rún frá Minningarsjóði Einars Darra.

Fjórar hendur