Um málefni ökutækjaleiga

5.6.2019

Vinna Samgöngustofu í málefnum ökutækjaleiga vegna mögulegra breytinga á kílómetratölu akstursmæla ökutækja stendur enn yfir. Óskað var eftir upplýsingum og gögnum frá öllum ökutækjaleigum með starfsleyfi, alls 127 talsins. Gera þarf skýran greinarmun á annars vegar starfsemi ökutækjaleigu í samræmi við lög um ökutækjaleigur á grundvelli starfsleyfis og hins vegar endursölu ökutækja á almennum markaði. Samgöngustofa hefur eingöngu valdheimildir gagnvart hinu fyrra. Hin meintu brot áttu sér að meginstefnu til stað við endursöluna og eru þau til skoðunar hjá lögreglu.

Samgöngustofa veitir starfsleyfi til ökutækjaleiga í atvinnuskyni. Í þessu regluverki kemur fram sú skylda ökutækjaleigu að hún skuli í öllu fara eftir ákvæðum laganna og leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Þá segir að tryggja skuli að ökutæki séu í góðu ásigkomulagi, hljóti gott viðhald og eftirlit.

Samkvæmt lögum um ökutækjaleigur skal Samgöngustofa senda leyfishafa skriflega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem tilefnið er tiltekið og leyfishafa veitt ráðrúm til úrbóta. Í einu tilfelli, þar sem ökutækjaleiga gekkst við umræddum breytingum á kílómetrastöðu, sendi stofnunin leigunni slíka viðvörun þar sem greint var frá því að fyrirhugað væri að fella niður leyfi félagsins. Þar sem þessi tiltekna ökutækjaleiga hafði sannanlega bætt úr annmörkum með því m.a. að bæta innra eftirlit þannig að þetta myndi ekki endurtaka sig var litið svo á að stofnunin hefði ekki lagaheimild til þess að framkvæma sviptinguna. Hins vegar sendi Samgöngustofa öll gögn málsins til lögreglu sem nú hefur málið undir höndum.