Umferðareftirlit með vörubifreiðum

6.11.2014

Í gær, miðvikudaginn 5. nóvember, unnu Samgöngustofa og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sameiginlega að eftirliti með vörubifreiðum í akstri á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða hefðbundið eftirlit en að auki var sérstaklega gefinn gaumur að flutningi á hættulegum farmi.

Við umferðareftirlit

Verkefnið stóð yfir í tvær klukkustundir og voru níu vörubifreiðar stöðvaðar. Af þeim var ein bifreið kyrrsett vegna brota á reglum um hæð farms og vegna ófullnægjandi hjólbarða. Þeirri bifreið var jafnframt fylgt af lögreglu til skoðunar þegar farmurinn hafði verið fjarlægður. Réttindi eins ökumanns til aksturs vörubifreiðar reyndust útrunnin, bifreið annars var um þremur tonnum yfir hámarksþyngd og sá þriðji uppfyllti ekki skilyrði um rétta notkun ökurita. Allra þessara ökumanna bíður kæra fyrir vikið.

Meginþungi umferðareftirlits Samgöngustofu með vörubifreiðum hefur hingað til beinst að akstri þeirra á þjóðvegum. Útkoma eftirlitsins í gær sýnir hins vegar ljóslega þörfina á samstarfi og eftirliti af þessum toga innan þéttbýlis.

Við umferðareftirlit