ABS hemlar

ABS hemlar eru ný tegund hemlakerfis sem miðar að bættu öryggi og aukinni stjórn ökumannsins á bifreiðinni

Í dag eru nær allar nýlegar bifreiðar búnar ABS hemlum (Antiblock Brake System – hemlun með læsivörn). Til þess að ná fram því öryggi sem ABS hemlar geta veitt þurfa ökumenn að vita hvernig hemlarnir virka og hvernig á að nota þá.

Hvað eru ABS hemlar og hvernig virka þeir?

Bifreið án ABS hemla læsir framhjólunum ef stigið er fast á hemlana. Um leið minnkar veggrip sem getur leitt til þess að ökumaður hefur ekki lengur stjórn á akstursstefnu bifreiðarinnar. Læst hjólin renna líkt og sleði á ís. Bifreið sem búin er ABS hemlum læsir hins vegar ekki framhjólunum. Með því  heldur bifreiðin stefnunni og ökumaðurinn hefur áfram fulla stjórn á bílnum þótt hann sé að bremsa.

 

Hvað þarf að hafa í huga þegar ABS hemlar eru notaðir?

  • ABS hemlar eru hannaðir til þess að hjálpa ökumönnum að halda stjórn á ökutækinu þegar hættuástand skapast en ekki til að hægt sé að stöðva bifreiðina fyrr.

  • ABS hemlar geta minnkað hemlunarvegalengd á þurrum, blautum og hálum vegum. Í lausamöl eða lausum snjó getur hemlunarvegalengdin hins vegar aukist.         

  • ABS hemlakerfið er hannað til þess að pumpa hemlunum sjálfvirkt upp og niður (allt að 24 sinnum á sekúndu) þegar stigið er á bremsuna. Því þarf ökumaður ekki að lyfta fætinum af bremsunni og getur því frekar beint huganum að því að stýra bílnum.

  • ABS hemlum fylgir gjarnan titringur, skrölt eða önnur óvenjuleg hljóð þegar stigið er fast á bremsuna. Þessi hljóð eru eðlileg og því á ökumaður ekki að taka fótinn af bremsunni þótt hann verði hljóðanna var.

  • Æskilegt er að ökumaður haldi ró sinni þegar ástæða er til að hemla og einbeiti sér fyrst og fremst að því að stýra bílnum í örugga höfn. Forðast skal að rykkja snöggt í stýrið en það eru oft fyrstu viðbrögð þegar hætta steðjar að.

  • Æfingin skapar meistarann. Því getur verið gott fyrir ökumenn að æfa sig í notkun hemlanna við öruggar aðstæður, fjarri annarri umferð.