Akstur um að- og fráreinar

Þegar ökumenn stefna inn á akbrautir eftir aðreinum lenda þeir oft í vandræðum með að komast inn í umferðina sem fyrir er

Oftast er það vegna þess að bíllinn er ekki á sama hraða og umferðin eða þá að ökumenn gefa honum ekki svigrúm til að komast inn á brautina. Hægt er að leysa þetta með tillitssemi og hæfni.

Í 20. grein umferðarlaga kemur fram að þar sem tvær samhliða akreinar renna saman í eina á vegi skulu ökumenn aka þannig að eitt ökutæki fari í senn af hvorri akrein eftir því sem við verður komið og umferðarmerki gefa það til kynna (tannhjólaaðferð). 

Þegar komið er inn á akbraut af aðrein skal:

  • Gefa stefnuljós og nota hliðarspegla bílsins til að gæta að plássi.

  • Líta snöggt til hliðar til að tryggja að engir bílar séu nærri.

  • Gæta þess að missa ekki athyglina af því sem framundan er.

  • Ná upp sama hraða og umferðin sem farið er inn í og síðan sveigja varlega inn á brautina.


Sé ekið á tveggja akreina götu sem aðrein liggur að skal:

  • Setja sig í spor þess sem ætlar að komast inn á brautina.

  • Víkja yfir á vinstri akrein og gefa þar með ökumanni pláss.

  • Skapa rými með því að hafa nóg bil á milli þín og næsta bíls fyrir framan.


Þegar farið er af akbraut inn á frárein skal fara inn á hana eins fljótt og hægt er og forðast þar með að trufla og hægja á umferð sem er á akbrautinni.

Hér er myndband þar sem fjallað er um akstur um að- og fráreinar:akstur um að- og fráreinar