Hjólbarðar

Hjólbarðar mynda einu snertingu bílsins við veginn og því er afar mikilvægt að þeir séu alltaf í góðu lagi

Ökumenn ættu því að athuga ástand þeirra reglulega.

Mynsturdýpt hjólbarða
Ný dekk eru með að meðaltali 8 til 9 mm mynstursdýpt en það getur verið töluverður munur á þessu milli sumar- og vetrarhjólbarða. Yfirleitt er mynstur vetrarhjólbarða dýpta en sumarhjólbarða.

Í gildi eru reglur sem kveða á um mynstursdýpt hjólbarða:

 • 14. apríl til 1. nóvember = Ekki minni en 1,6 mm.
 • 1. nóvember til 14. apríl = Ekki minni en 3 mm.

  Athugið að þetta er lágmark og best er að mynsturdýptin fari ekki niður að þessu.

Hjólbarðar undir bifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd skulu allir vera sömu gerðar. Þetta á sem sé við um flestar fólksbifreiðar og jeppa.

Auknar kröfur eru gerðar til þeirra bíla sem ætlaðir eru til neyðaraksturs, en mynstursdýpt hjólbarða skal í þeim tilvikum vera að lágmarki 4mm að vetrarlagi en 2mm yfir sumartímann.

Gæðamerkingar hjólbarða
Einnig eru í gildi reglur sem kveða á um að seljendum hjólbarða sé skylt að hafa hjólbarða merkta með upplýsingum um samræmdar gæðaprófanir. Þannig getur kaupandi gert áreiðanlegan samanburð á gæðum og öryggi hjólbarðanna.

Merkingar, mynstur og loftþrýstingur

Í nóvember 2012 tóku í gildi reglur sem kveða á um að seljendum hjólbarða sé skylt að hafa upplýsingar um samræmdar gæðaprófanir hjólbarða á merkingum sem límdar eru á hjólbarðana. Með þessu getur kaupandi gert áreiðanlegan samanburð á gæðum, kostum og öryggi hjólbarðanna.

Hjólbarðar - algengar spurningar og svör

Að mörgu er að hyggja þegar kemur að hjólbörðum, vali á þeim, viðhaldi og eiginleikum. Hér að neðan má sjá algengar spurningar er snúa að hjólbörðum auk svara við þeim.

Er lofþrýstingur réttur?

Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur hjólbarðanna og um leið veggrip þeirra. Yfirleitt eru upplýsingar um réttan loftþrýsting að finna í handbók bílsins en einnig má spyrjast fyrir hjá þeim sem til þekkja svo sem hjá bifvélavirkjum, starfsmönnum hjólbarðaverkstæða eða skoðunarstöðva. Einnig er mikilvægt að jafn loftþrýstingur sé í hvoru framhjóli og hvoru afturhjóli fyrir sig.

Eru hjólbarðarnir slitnir?

Bílaeigendur verða að fylgjast með sliti á hjólbörðum bíla sinna enda minnkar veggrip þeirra við slit og þar með öryggið. Samkvæmt reglugerð má dýpt mynsturraufa í hjólbarða ekki vera minni en 1,6 mm.

Eru allir hjólbarðar sömu gerðar?

Hjólbarðar undir bifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd skulu allir vera sömu gerðar.

Hæfa hjólbarðarnir aðstæðum?

Afar brýnt er að ökumenn noti ávallt dekk sem hæfa þeim aðstæðum sem þeir aka við hverju sinni. Þegar snjór eða ísing er á vegi skal hafa snjókeðjur á hjólum eða eftir akstursaðstæðum annan búnað t.d. grófmynstraða hjólbarða (vetrarmynstur), með eða án nagla, sem veitt getur viðnám. Eins og áður segir skal fólksbifreið búin hjólbörðum með a.m.k. 1,6 mm mynstursdýpt á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október. Á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 14. apríl skal fólksbifreið búin hjólbörðum með a.m.k. 3,0 mm mynstursdýpt. 

https://youtu.be/oBArJksGgnI

Er hemlunarvegalengd á ís mismunandi eftir hjólbörðum?

Talsverður munur er á hemlunarvegalengd mismunandi tegunda vetrardekkja við mælingu á þurrum ís. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gerði sérstaka tilraun á hemlunarvegalengd fyrir borgarverkfræðing/gatnamálastjórann í Reykjavík, Vegagerðina og Umferðarráð í samstarfi við Skráningarstofuna hf., Frumherja hf. og umferðarsvið, Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Hér er hægt að nálgast fréttatilkynningu og skýrslu um tilraunina sem gefin var út í október 2001.

Nagladekk og keðjur - hvenær má setja þau undir?

Keðjur og neglda hjólbarða má ekki nota á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.

Hefur hjólbarðastærð áhrif á hraða?

Þegar settir eru minni hjólbarðar undir ökutæki en gert er ráð fyrir fer ökutækið hægar en hraðamælir gefur til kynna. Að sama skapi fer ökutækið hraðar en hraðamælir gefur til kynna séu hjólbarðar undir bílnum stærri en gert er ráð fyrir. Frávik allt að 10% að viðbættum 4 km/klst eru leyfð á milli hraða og hraðamælis. Hraðamælir má þó aldrei sýna meira en 4% minni hraða en raunhraða.

Hvernig skal skipt um hjólbarða?

 1. Setjið bílinn í gír, handhemilinn á og steina við hjól ef þörf krefur.

 2. Setjið viðvörunarþríhyrninginn 50-100 m fyrir aftan bílinn.

 3. Takið hjólkoppinn af og losið um allar felgurærnar en takið þær ekki af.

 4. Náið í varahjólbarðann og tjakkinn. Stillið tjakknum undir bílinn. Upplýsingar um hvar hann er að finna og hvar á að setja hann undir er í eigandahandbókinni.

 5. Lyftið bílnum þar til hjólbarðinn, sem skipta á um, er í lausu lofti.

 6. Skrúfið felgurærnar af og takið sprungna hjólbarðann undan.

 7. Setjið varahjólbarðann undir og skrúfið rærnar að - sú hlið róarinnar sem er með úrtakinu (koniska hliðin) á að snúa að hjólbarðanum (felgunni). Herðið rærnar á misvíxl, þannig að felgan sitji rétt á.

 8. Slakið bílnum niður, takið tjakkinn undan og herðið allar rærnar aftur. Setjið hjólkoppinn á.

https://youtu.be/Zc7P06V_-dg